135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:14]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er búið að ræða í allan dag eða frá því klukkan tíu í morgun um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði sem eiga sér (Gripið fram í: Það er nú búið að ræða annað líka.) nokkurn aðdraganda og vissulega, eins og hér er sagt þá er búið að ræða ýmislegt annað á meðan. Ég hef haft tækifæri til þess að fylgjast með umræðunni í þeim frábæru viðtækjum sem við höfum og náð að skanna það sem hefur verið sagt. Það eru vissulega uppi ólíkar skoðanir í þessu, ólík sjónarmið, líkt og fram kemur í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er í nefndaráliti frá 2. minni hluta, frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur. Umsögnin er í fylgiskjali I og þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur ekki afstöðu til frumvarpsins en ólík sjónarmið komu fram við umræðu á fundinum. Sérálit Svandísar Svavarsdóttur kemur fram í niðurlagi þessarar umsagnar.“

Það er nefnilega þannig að það eru uppi í þessu eins og í fjölmörgum öðrum smáum og stórum málum ólík sjónarmið og við verðum að reyna að tala okkur í gegnum þá umræðu og væntanlega að segja hinum sem hafa önnur sjónarmið uppi en við sjálf hvernig betur megi fara. Ég hef skynjað það að vinstri grænir vilji fresta þessu máli og í raun og veru ekki klára það á þessu þingi. Þar af leiðandi hafa þeir komið ansi öflugir inn í umræðuna og flestir þingmennirnir í þeim flokki tjáð sig og er það vel að menn geti sett sig jafn vel inn í málin og hér hefur verið gert í dag.

Ég var nú að rifja upp með formanni iðnaðarnefndar, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, H-daginn fyrir 40 árum og komst þá að því að hv. þingmaður formaður iðnaðarnefndar var ekki fæddur þá. Það var nefnilega þannig að á svipuðum tíma sá ég bíómynd í Gamla bíói, virðulegi forseti og það var svona framtíðarmynd. Góðir og vondir karlar voru að kljást og vondu karlarnir voru búnir að búa til kex sem allir borðuðu og góðu karlarnir voru að reyna að finna út hvernig kexverksmiðjan starfaði. Það kom í ljós í lok myndar en faðir minn fór með mig á þessa mynd og ég kunni honum nú ekkert góðar þakkir fyrir því ég fékk martröð margar nætur á eftir, því það var þannig að kexverksmiðjan var líka líkbrennsla. Fyrir vikið hætti ég að horfa á framtíðarmyndir og fór að horfa á fortíðarmyndir, aftur til fortíðar. Í þeim lék alltaf amerískur leikari, mjög myndarlegur, og þær snerust um það að hann hoppaði nokkur ár aftur í tímann og tók þátt í ýmsu og yfirleitt var hann með einhverjar breytingartillögur og náði þeim í gegn með hreinum meiri hluta og þá breyttist ýmislegt sem gerðist í nútíðinni.

Hér erum við vissulega ekki að fjalla um fortíð og þó, við erum svolítið að endurspegla okkur í þeirri fortíð sem hefur verið til staðar. Og ef við horfum á veitumálin þá hafa þau þróast bæði út frá samfélagslegum sjónarmiðum og líka út frá einkahagsmunum.

Við þekkjum það sérstaklega í bændasamfélaginu, virðulegi forseti, hvort sem er á Suðurlandi eða Norðurlandi eða annars staðar að bændur upp til sveita, fyrir yfir 100 árum, og kannski líka menn í smáum samfélögum tóku sig til í krafti einkaframtaksins (JBjarn: Einstaklingsframtaksins, það er svolítið annað.) einstaklingsframtaksins og einkaframtaksins og fóru jafnvel að virkja bæjarlæki. Menn fóru að búa til vatnsveitur og jafnvel fráveitur, þeir sem voru framsýnir bjuggu til fráveitur og hreinsuðu fráveituvatn og menn komu upp húshitun í formi rafmagns eða notuðu heitt vatn til þess að hita upp hús.

Síðan þróaðist þetta þannig í kringum þorpin og kauptúnin og kaupstaðina að samfélagið sjálft fór og setti niður veitur, yfirleitt í kringum bæjarfélögin, í næsta þrepi þróaðist þetta út í félagaformið og jafnvel komu fleiri en eitt sveitarfélag eða ríkið að málum. Við höfum haft það svona í þeirri skýrustu mynd síðustu 40 ár eða síðan við breyttum umferðinni úr vinstri í hægri og það hafa líklegast verið hægri menn sem gerðu það, a.m.k. hefur hv. þm. Jón Bjarnason sagt mér að það hafi verið þeir sem hafi stuðlað að því að breyta þessu úr vinstri í hægri umferð.

Ég var í London nýlega og hitti hv. þm. Árna Þór Sigurðsson á flugvellinum rétt áður en ég fór til London og ætlaði að keyra upp til Stoke og hann sagði mér að sannir vinstri menn þyrftu ekki nema tíu sekúndur til þess að skynja umferðina í Bretlandi og ég get nú sagt það að ég þurfti tvær mínútur. En Árni Þór sagðist bara þurfa tíu sekúndur. En ég náði hins vegar að keyra upp til Stoke og sjá þar frábæran knattspyrnuleik í því samfélagi sem þar er og þar er vissulega líka tekist á um orkumál. En það sem ég var hins vegar kominn að í sögunni var í raun og veru ekki það sem er að gerast í Stoke heldur fyrst og fremst það sem hefur verið að þróast í veitumálum. En það sem mér hefur fundist vanta á í umræðuna í dag er í raun og veru sú þróun sem við höfum séð í fráveitumálum sem er vissulega orðin gríðarleg.

Við þekkjum það í fráveitumálum að fráveitukerfin voru mjög bágborin og eru það víða um land. Þess vegna finnst mér það mikilvægt að við stöndum saman að því hér þingheimur, virðulegi forseti, að styðja það að til að mynda sveitarfélög geti farið í jafnöflugar fráveituframkvæmdir og þau hafa verið að gera á umliðnum árum. Fráveitumannvirki eru mjög víða bágborin og enn þá er verið að veita þessu út í skurði og jafnvel út í flóa. Hins vegar er það þannig að með nýrri hreinsunartækni og nýrri lagnatækni eru menn komnir með tvöfalt fráveitukerfi víða í sveitarfélögum, bæði dren og síðan holræsi. Þar sem ég þekki best til í hinu öfluga sveitarfélagi Hafnarfirði er allt vatn hreinsað og því er síðan dælt hreinsuðu langt út í sjó en um leið er jarðvatn og dren nýtt til þess að að veita því aftur út í hinar náttúrulegu lindir þar sem það á að nýtast. Eins og við þekkjum með tjarnir víða, ég get nefnt sem dæmi Ástjörn í Hafnarfirði eða Urriðakotstjörn í Garðabæ, að þegar farið er að byggja í kring og samfélagið stækkar þá eru þessar tjarnir vissulega á ákveðnu undanhaldi.

En um þetta þurfum við að hugsa og þá erum við komin að grundvallarspurningu í þessu máli, virðulegi forseti: Það er ekki bara það hverjar eru lindirnar heldur hver er viðtakandinn. Í þessu tilfelli er það kannski erfitt, og þá vísa ég aftur til bíómyndarinnar í Gamla bíói um kexið, að það er kannski sérstakt til þess að hugsa í dag að við förum að hafa áhyggjur af viðtakandanum, svelgnum sjálfum því svelgurinn speglast í lindinni. Svelgurinn tekur við kalda vatninu og heita vatninu sem annars vegar er veitt upp úr borholum eða tekið beint úr fallvötnum og yfirleitt leitt inn í hús og síðan aftur út úr þeim.

Ef verið er að hugsa um rekstur og sérstaklega í ljósi þess að mikið hefur verið talað um einkarekstur og hagnaðarsjónarmið, og ef ég ætti að velja í þeim málum þá mundi ég velja það að vera í fráveiturekstri því þar eru mestu sóknarfærin til framtíðar og sérstaklega í ljósi þess að þeir sem sjá um fráveituna taka í raun og veru við kalda vatninu og heita vatninu og koma því í burtu. (Gripið fram í.) Akkúrat. Menn hafa nefnilega litið svo á að auðvitað þurfum við á kalda og heita vatninu að halda þegar það kemur inn en við þurfum líka að koma því í burtu. Þess vegna segi ég að það stórátak sem unnið hefur verið í fráveitumálum hér á landi á umliðnum árum er mjög eftirtektarvert og við eigum að lofa þau sveitarfélög sem stíga fram í þeim málum.

Upphaf þessa máls má hugsanlega rekja til þess sem gerðist hér á vetrarmánuðum 2006–2007 þegar tekin er ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og sveitarfélögin sem áttu í hitaveitunni með ríkinu fóru þess á leit við ríkið að fá að kaupa hlutinn út af því að það var forkaupsréttur. En niðurstaða ríkisins á sínum tíma — þetta var nú áður en hæstv. iðnaðarráðherra settist hér í ríkisstjórn, það má vera að niðurstaðan hefði orðið önnur í dag — var sú bjóða hlutinn út á opnum markaði og í gegnum einkavæðingarferli. Það voru settar inn girðingar í útboðið og síðan þegar leið að útboði þá var ekki búið að ná samstöðu í hluthafahópi Hitaveitu Suðurnesja um samkomulag um það sem má kalla útþynningu á hlutum og litlir hluthafar stóðu frammi fyrir því að miðað við þau tilboð sem lágu fyrir að menn gætu hugsanlega verið þynntir út eins og það heitir á eignamyndunarmáli í hlutafélögum. Þess vegna fór af stað nýtt kapphlaup um kaup á hlutnum og Orkuveita Reykjavíkur blandaði sér inn í það sem framvirkur kaupandi og það var gert með einróma samstöðu í stjórn Orkuveitunnar. Það var Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir og Samfylking og Framsóknarflokkur sem studdu það. Þetta var nú gamla borgarstjórnin eða sumarið 2007. Þetta endaði með því að Reykjanesbær, Grindavík og Hafnarfjörður keyptu hlut ríkisins.

Það ætti eiginlega að leiðrétta það sem oft hefur komið fram í umræðunni að ríkið hafi selt einkaaðila, því ríkið gerði það ekki í raun og veru heldur voru það önnur sveitarfélög sem síðan seldu einkaaðila. Það voru sveitarfélögin Árborg og Kópavogur, Sandgerði og Vestmannaeyjar, Garður og Reykjanesbær sem seldu Geysi Green. Orkuveitan keypti síðan þessa framvirku hluti af Grindavík og Hafnarfirði og hlut Grindavíkur. Þá seldi Reykjanesbær líka Orkuveitunni og í kjölfarið lagði, eins og menn vita, Orkuveitan inn kauptilboð í allt að 100% hlut Hafnarfjarðar í hitaveitunni og það var tekin afstaða til þess í desember sl. og það mál hefur síðan dansað á milli Orkuveitunnar og Hafnarfjarðarbæjar með viðkomu í Samkeppniseftirlitinu og núna í Samkeppnisráði.

En vegna þessara skipta á hlutum þá ákvað Orkuveita Reykjavíkur í októbermánuði að leggja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja inn í sameiginlegt félag, REI, með Geysi Green og hlut Geysis Green í hitaveitunni sem þeir höfðu keypt af sveitarfélögum sem ég nefndi hér áðan og síðan hugsanlega hlut Hafnarfjarðarbæjar. Í öllu þessu ferli hef ég komið að því. Ég að vísu hef gert mig vanhæfan í stjórn Hitaveitu Suðurnesja við að taka þátt í áliti um lögin og frumvarpið, virðulegi forseti, og vil ítreka það að ég hef vikið af fundum þegar þau mál hafa komið upp til þess einmitt að geta tekið þátt í því hér í þingsal.

En í ljósi þess sem kom fram í októbermánuði þá skýrði hæstv. iðnaðarráðherra frá því að hann mundi vinna að gerð frumvarps til þess að skoða umrætt lagaumhverfi og styrkja þau lög sem snúa að umræddum auðlinda- og orkumálum. Á sama tíma tóku sveitarfélögin Hafnarfjörður, Vogar og Grindavík upp á því að stofna enn eitt hlutafélagið um orkumál, Suðurlindir ohf. og það er opinbert hlutafélag og opinbert hlutafélag þýðir það að hlutafélagið er alfarið í eigu eins eða fleiri opinberra aðila.

Ég vil meina það, virðulegi forseti, að það frumvarp sem hér er til umræðu styrkir það umhverfi sem snýr að orkufyrirtækjunum. Það styrkir ekki síður það umhverfi sem snýr að sveitarfélögunum og samneyslunni. Því umrædd löggjöf í dag er mjög bágborin eins og við höfum orðið vör við.

Það má vel vera að við getum deilt síðan um það hvort hlutirnir eigi að vera að lágmarki 50% eða meiri hluti eða tveir þriðju hlutar. Ég held að hugmyndir um tvo þriðju hluta hafi komið inn á sínum tíma í tengslum við lög um hlutafélög varðandi það sem lýtur að breytingu á samþykktum og einnig því að tveir þriðju séu varðandi það að menn afskrái félög og taki þau af hlutafélagaskrá. Hér hafa hlutirnir hins vegar komið fram í breytingartillögunni í meiri hluta. Það skiptir verulegu máli, virðulegi forseti, að hlutirnir séu í meiri hluta. Ég hef talað fyrir því, og segi það af þeirri reynslu sem ég hef, að hvort tveggja, auðlindirnar og dreifikerfið séu í meiri hluta en hins vegar gagnvart dælufyrirtækjunum eins ég kalla þau, hvort sem þau dæla heitu vatni upp úr jörðu, hreinsa vatn og dæla því út í sjó eða hreinsa vatn og dæla því í rotþró, þá hef ég sagt það að ég geri ekki þá kröfu að þau séu alfarið í eigu opinberra aðila eða jafnvel í 50% eigu opinberra aðila.

Það mega að mínu viti vera einkaaðilar sem koma að slíku enda er þarna um fjölmörg verkefni að ræða og ég veit að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem hefur tekið þátt í sveitarstjórnarmálum um langt skeið þekkir þetta jafn vel og ég að það eru ýmis verkefni sem sveitarfélögin hafa falið einkaaðilum og ég álít að það megi fela einkaaðilum afmörkuð verkefni, t.d. að keppa um það hver eigi að dæla vatni upp úr holum eða dæla því í gegnum rör.

En þá komum við einmitt að rörunum og það er stóra málið. Ég ætla ekki að endurtaka sjónarmið mín varðandi gagnaflutningsnetið á sínum tíma. Ég er nýsestur í stjórn Fjarskiptasjóðs og þar er enn verið að ræða um gagnaflutningsnetið og núna um svokallaða NATO-strengi og þar af leiðandi hef ég lýst því yfir og hef alla tíð haft þá skoðun að salan á Símanum á sínum tíma hefði átt að vera tvískipt. Annars vegar átti Síminn að selja samkeppnisreksturinn frá sér en hins vegar að halda í netið sjálft. Það er það sem verið að reyna að gera í þessum lögum og um þetta má deila og skoðanir manna hafa verið ólíkar, hugsanlega eins og í bíómyndinni í gamla daga eða jafnvel þegar við breyttum úr vinstri umferð í hægri umferð, þ.e. hvort viðmiðunarmörkin eigi að vera 50%, tveir þriðju eða jafnvel 100%.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu á því að fagna því að umrætt frumvarp sé komið til umræðu og ég veit að í því umhverfi sem orkufyrirtækin starfa og þar af leiðandi sveitarfélögin einnig er auðvitað beðið eftir því hver niðurstaðan verður í þessum málum. Það má vel vera eins og hér hefur verið bent á að eitthvað hefði mátt betur fara en þegar á heildina er litið veit ég að með því frumvarpi sem hér um ræðir og hugsanlegri löggjöf þá verður lagaumhverfið mun betra en það er í dag því mér hefur fundist það vera mjög vængbrotið.