135. löggjafarþing — 108. fundur,  26. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[23:54]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Mat mitt er að þetta frumvarp sé af hinu góða. Það er gott að fá fram frumvarp um réttindi varðandi auðlindir í jörðu. Ég er ekki í vafa um það sé af hinu góða að ríki og sveitarfélög eigi orkuauðlindirnar í jörðu.

Að einkavæða orkufyrirtæki er auðvitað annað mál og eftir sem áður, þrátt fyrir þetta frumvarp, er hægt að selja orkuverin sjálf svo framarlega sem sveitarfélögin eða ríkið eiga orkuauðlindirnar. Mér er tamt að tala meira um Hitaveitu Suðurnesja en önnur orkufyrirtæki og fyrirtæki í þessum bransa sem selja heitt og kalt vatn og framleiða rafmagn. Eins og Orkuveita Reykjavíkur þá er Hitaveita Suðurnesja líka með fráveitur.

Þetta er þess konar iðnaður að það er óveruleg samkeppni milli fyrirtækja í þessum geira. Svo stöndum við frammi fyrir því nú að væntanlega verður fyrirtækjum eins og Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í þrjár einingar. Orkuauðlindir í jörðu verða einn hlutinn, orkuverin annar hluti og svo rörin, dreifikerfið, þriðji hlutinn. Viljayfirlýsing hefur komið frá stjórnarformanni Hitaveitu Suðurnesja og forstjóra hennar um að breyta eignarhaldinu á fyrirtækinu. Þá veltir maður því fyrir sér hver muni hafa hag af þessu. Hver mun græða mest á því þegar búið er að skipta fyrirtækinu upp? Ef við gefum okkur að yfirlýsing frá stjórnarformanni Hitaveitu Suðurnesja standist og gangi eftir þá verður Reykjanesbær væntanlega eigandi að orkuauðlindunum, landinu og borholum. En væntanlega mun Geysir Green Energy eignast orkuverið sem verður sjálfsagt sá hluti af þessu sem gefur mest í aðra hönd, eða eins og maður segir, þar sem peningarnir verða til. Ekki er mikill áhugi fyrir því að eignast hlut í rörunum eða dreifikerfinu.

Þá spyr maður: Hvernig verður með verðlagningu á þessu? Hvaða afleiðingar mun það hafa? Fólkið á Suðurnesjum byggði upp Hitaveitu Suðurnesja, svo ég haldi mig nú við hana, eins og Orkuveitu Reykjavíkur. Það voru Reykvíkingar sem byggðu Orkuveitu Reykjavíkur. Orkuveita Reykjavíkur hefur verið í ýmiss konar þróunarverkefnum og tilraunaverkefnum. Hið sama á við um Hitaveitu Suðurnesja. Þessi fyrirtæki hafa þróast áfram með miklum tilkostnaði og þess vegna hefði maður viljað að almenningur nyti góðs af þessum fyrirtækjum til frambúðar.

Annað atriði í þessu frumvarpi sem ég benti á í minnihlutaáliti mínu er reglan um nýtingarrétt til 65 ára. Það má selja allt að 65 árum sem er gríðarlega langur tími og okkur er öllum hollt að líta til baka síðustu 65 ár og sjá hvernig þróun mála hefur verið, eða allt frá seinna stríði. Það má segja að það sé svo mikil þróun í tækni og ýmsu öðru, þróun á olíuverði og eldsneytisverði og orkuverð er alltaf að hækka og verða meira virði. Er þá skynsamlegt fyrir okkur að binda samninga um nýtingarrétt, hvort sem það varðar heitt vatn eða fallvötn, til svona langs tíma? Það er nokkuð sem ég held að við ættum að hugsa um í framtíðinni.

Ég segi hiklaust að Hitaveita Suðurnesja á að fara úr einkaeign og ég hefði helst viljað að orkuverin yrðu ekki í einkaeign í framtíðinni heldur yrðu þau sameign fólksins sem byggði upp þessi fyrirtæki. Ég teldi það vera best.

Í fyrrahaust þegar til stóð að REI keypti aukinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja og eignaðist hann, hefði einkageirinn verið búinn að eignast 68% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þá blasti við að þeir eigendur og hluthafar treystu sér ekki til þess að fjárfesta í vatnsleiðslu til Vestmannaeyja sem átti að kosta 1100 millj. kr. Þeir óskuðu eftir því þá að þingmenn Suðurkjördæmis beittu sér fyrir því að fá 600 millj. kr. úr ríkissjóði fyrir vatnslögn til Vestmannaeyja af því að vatnssala í Vestmannaeyjum gaf ekki nema 50 millj. á ári. Við erum að tala um kalt vatn til Vestmannaeyja sem Vestmannaeyingar þurfa og verða að fá.

En einkageirinn, einkakapítalið, vildi ekki leggja í óarðbærar fjárfestingar eins og vatnslögn út í Vestmannaeyjar og ætlaðist til þess að ríkið eða sveitarfélögin kæmu að því. Meira að segja var sagt við okkur að ef ríkið gerði það ekki þá yrði að hækka verð á heitu og köldu vatni og rafmagni. Og hver borgar þá brúsann? Jú, það eru auðvitað viðskiptamenn, viðskiptafólk hitaveitunnar á öllu svæðinu, Suðurnesjamenn og Hafnfirðingar og fleiri.

Þetta er auðvitað eitthvað sem gat komið upp en sem betur fer breyttist það nú og ekki varð úr samningnum við REI. En við sitjum samt eftir með það að Geysir Green Energy á 32%. Þeir hafa eðlilega aðrar hugmyndir varðandi svona fyrirtæki en sveitarstjórnarmenn og þeir sem vilja hafa sem lægst orkuverð fyrir þá sem ætla að nota heitt og kalt vatn og rafmagn. Það er ósköp eðlilegt að þeir sem setja peninga í svona fyrirtæki vilji hafa arð af fjárfestingum sínum. Ég er ekki að gera lítið úr því og það er oft krafturinn sem fylgir peningunum. En hitaveitan þurfti ekkert á peningum að halda inn í þetta. Þetta eru þrælsterk fyrirtæki hvort sem við tölum um Orkuveitu Reykjavíkur eða Hitaveitu Suðurnesja.

Þeir sem vildu komast þarna inn vildu ná í þekkingu innan frá. Þeir vildu nýta sér þá reynslu og þekkingu sem starfsmenn þessara fyrirtækja hafa verið að þróa og læra í gegnum tíðina á kostnað eigenda fyrirtækjanna, þ.e. fólksins. Mér fannst ekki hægt annað en að minnast á þetta með Vatnsveitu Vestmannaeyja þegar við blasti að eignarhluturinn hjá Hitaveitu Suðurnesja væri kominn í 68% hjá einkakapítalinu. Þá var ekki hægt að leggja kaldavatnslögn til Vestmannaeyja. Þetta er hlutur sem sjálfsagt er að minnast á af því að það er samfélagslegt verkefni að sjá fólkinu fyrir hita í húsin, rafmagni og köldu vatni. Það fer ekki saman nema í mjög fáum tilfellum að gera það með þeim hætti sem ég lýsti.

Ég legg enn og aftur áherslu á það og hvet þau sveitarfélög sem gera samninga í framtíðinni að gæta þess að gera nógu stutta samninga. Þótt í lögunum standi 65 ár, sem ég legg til að verði 35 ár, þá þurfa sveitarfélög ekki að gera lengri samninga en þess vegna 25 eða 30 ár. Eins og allt útlit er fyrir um þróun á orkuverði er mjög líklegt að þörf fyrir þessa orku í annað en hún er notuð til nú, verði meiri. Því verður hægt að fá hærra verð og jafnvel skynsamlegri nýtingu á raforkunni.