135. löggjafarþing — 108. fundur,  27. maí 2008.

meðferð einkamála.

232. mál
[00:06]
Hlusta

Frsm. allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála.

Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið til sín gesti þar sem um það hefur verið fjallað.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála í því skyni að fullgilda þrjá alþjóðasamninga á sviði einkamálaréttarfars. Frumvarpið er samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra og gert er ráð fyrir að breytingarnar sem í því felast stuðli að því að gera okkur kleift að fullgilda þrjá alþjóðasamninga á sviði réttarfars. Miða breytingarnar að því að tryggja að fullt verði samræmi milli þessara samninga og íslenskra réttarfarslaga. Þessir samningar eru kenndir við borgina Haag í Hollandi og eiga sér langa sögu sem rakin er í greinargerð með frumvarpinu. Þeir hafa ekki verið fullgiltir af Íslands hálfu og er nefndin sammála því mati að löngu sé tímabært að úr því verði bætt. Styður nefndin því þær breytingar sem frumvarpið felur í sér að þessu leyti.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum sem getið er um í nefndaráliti og felst í breytingu á 4. gr. þar sem segir: A-liður orðist svo: Í stað orðanna „eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu“ í a-lið 1. mgr., sbr. 3. gr. laga nr. 72/2003, kemur: aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða aðildarríkis Haag-samnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954.

Í öðru lagi að á eftir orðinu „undanþeginn“ í efnismálsgrein b-liðar komi: „því“.

Sigurður Kári Kristjánsson og Karl V. Matthíasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita auk mín Ágúst Ólafur Ágústsson, Atli Gíslason, Ellert B. Schram, Siv Friðleifsdóttir, Ólöf Nordal og Jón Magnússon.