135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það var dýr hver mínútan í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir stærstu einstöku lántöku Íslandssögunnar, 500 milljörðum kr. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta heldur bágborin frammistaða. Ég reiknaði með því að hæstv. fjármálaráðherra færi hér yfir það með hvaða hætti þetta gerði efnahagsstjórnina og stöðuna í hagkerfinu trúverðuga og að þetta ætti að duga til þess a.m.k. að reisa einhverja rönd við þeim hremmingum sem íslenskur þjóðarbúskapur hefur verið og er að ganga í gegnum. Ég held að það verði ekki mikið vitnað í þessa ræðu, ég held að hún muni ekki þykja mikil rök, ekki kraftmikil, þróttmikil framsaga fyrir því að það sé af einurð og hörku verið að reyna að bregðast við erfiðleikunum og takast á við þá.

Staðreyndin er sú að það sem við stöndum núna frammi fyrir, þessi rosalegi reikningur, lántaka upp á 500 milljarða kr., hátt í tveggja ára veltu ríkissjóðs svo dæmi sé tekið, er herkostnaðurinn af stóriðju-, skattalækkunar- og útrásarveisluhöldum undanfarinna ára. Hagstjórnarmistökin, mistökin í hagstjórn á Íslandi eru nú að koma þjóðarbúinu í koll og ríkissjóður ætlar að taka á sig umtalsverðar byrðar. Það er með öðrum orðum dýrt að borga fyrir mistökin. Hversu dýrt það verður er erfitt að segja en frumvarpið er sömuleiðis heldur fátæklegt um það við hverju má búast í beinum áhrifum á afkomu ríkissjóðs þegar vaxtamunurinn verður borgaður milli lánsins eða lánanna sem ríkissjóður tekur og þess sem það fær af innstæðunum.

Það eru auðvitað óskaplega miklar upplýsingar frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að 10 punktar af 500 milljarða láni séu 500 milljónir, það munar mikið um það að fá þá kennslu í stærðfræði, en það er ekki sagt eitt einasta orð um það hvers megi vænta í þessum efnum. 20 punktar eru þá með sömu stærðfræði einn milljarður (Gripið fram í: Á ári.) á ári og ætli það geti ekki farið svo að við stöndum frammi fyrir herkostnaði af þessu ástandi sem nemi milljörðum króna á tímum þar sem væntanlega stefnir í óumflýjanlegan hallarekstur á ríkissjóði?

Sú kenning hefur verið uppi að það hafi verið skynsamlegt að bíða og aðrir tala um eftiráspámenn og spekinga. En ætli við stöndum ekki frammi fyrir því hversu rosalega dýrt það reynist okkur andvaraleysið og ráðleysið undanfarna mánuði og missiri að fara þarf út í svona viðamiklar björgunaraðgerðir eða varnaraðgerðir og það er auðvitað óumflýjanlegt því að hvernig halda menn að ástandið yrði ofan í talið um það að verið sé að undirbúa ráðstafanir ef ekkert yrði svo gert? Þá fyrst fengjum við til tevatnsins, þá þyrfti ekki að sökum að spyrja hvað gerðist í hagkerfinu hér, áhlaup á bankana og gjaldmiðilinn og allt það.

Vandinn er nefnilega sá að þó að svokallað skuldatryggingarálag á ríkissjóð og banka hafi lækkað eitthvað hafa aðrir greitt herkostnaðinn á meðan og hverjir eru það? Það eru skuldsett heimili í landinu, það eru fjölskyldurnar og það er hið almenna atvinnulíf. Hvað þýðir 12 til 13% verðbólga mánuð eftir mánuð? Hvaða þýðir verðbólga á fjórum mánuðum samkvæmt vísitölu neysluverðs sem hefur hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári? Ef fasteignaverð væri ekki farið að lækka — og nú þakka menn væntanlega fyrir að hafa húsnæðiskostnaðinn inni í vísitölunni — þá væri verðbólgan á fjórða tug prósenta þessa þrjá mánuði. Hvað þýðir 30 og upp í 40% gengisfall gagnvart gjaldmiðlum sem fólk hefur í stórum stíl verið að taka lán í undanfarin ár til íbúðarkaupa og til bílakaupa? Það þýðir þyngda greiðslubyrði svo nemur tugum þúsunda á mánuði jafnvel af vaxtakostnaðinum einum af þessum erlendu lánum. Hvað þýða hæstu stýrivextir í heimi? Hvað þýða 24–25% yfirdráttarvextir á þeim lánum sem eru mjög almenn sem viðbótarfjármögnunarlán heimila og lítilla fyrirtækja, 12 eða 13% raunvextir? Það tekur í. Þarna liggur herkostnaðurinn, þarna kemur reikningurinn fram sem ríkisstjórnin stærir sig af að hafi verið gáfulegt að senda á þetta heimilisfang og bíða með aðgerðir, sitja ofan á höndunum á sér undanfarin ár.

Það vill svo til að eins árs afmæli ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur ber upp á verðbólgumetið. Sama dag sló verðbólgan met frá því í ágúst 1990. Það var lítið talað um það á afmælisdaginn en leikskólabörnum var boðið til að skreyta sig með þeim í ráðherrabústaðnum. Það hefði kannski verið nær að reyna að gera eitthvað annað fyrir þau og foreldra þeirra en að gefa þeim kökur, eins og að reyna að koma aftur eðlilegu ástandi á í hagkerfinu.

Þegar seðlabankastjóri Davíð Oddsson talar um eftiráspekinga, við hverja er hann þá að tala og hverja er hann að verja? Sjálfan sig, sem var forsætisráðherra og síðan utanríkisráðherra á árunum þegar þetta fór allt úr böndunum? Á kæruleysis- og ruglárunum frá 2003–2008 sem eiga eftir að verða tekin í stjórnmálasögu landsins sem dæmi um ótrúlegt ábyrgðarleysi ráðamanna þegar þeir kafsigldu þjóðarskútunni í erlendum skuldum og horfðu á viðskiptahallann fara upp í meira en fjórðung af landsframleiðslu og töluðu um góðæri. Það var nú meira góðærið að taka fjórðu hverja krónu að láni sem þjóðarbúið eyddi gagnvart útlöndum.

Nei, það var nefnilega ekki þannig að þetta hafi allt saman verið eftiráspekingar. Menn voru varaðir við af forverum Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum, af innlendum og alþjóðlegum ráðgjafarfyrirtækjum og hér var a.m.k. einn flokkur og einn stjórnmálamaður sem á hverju einasta ári frá 2003 sagði: Þetta mun enda illa. Það er ekki hægt að reka þjóðarbúið með bullandi halla í viðskiptum við útlönd ár eftir ár og slá fyrir mismuninum og leggja það ofan á erlendan skuldastabba þjóðarbúsins öðruvísi en að það endi illa.

Strax 2005 lögðum við fram tillögur um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Hvað sögðu ráðamenn þá? Þeir töluðu um gamaldags hugsunarhátt, að fara út í efnahagsráðstafanir í gömlum stíl er liðin tíð, við gerum ekki svoleiðis, þetta er orðið svo flott og markaðurinn leysir þetta. Hvað er 500 milljarða lántaka ríkissjóðs? Er það ekki gamaldags efnahagsráðstöfun, eitthvert rosalegasta inngrip af þessu tagi sem við höfum séð í okkar hagsögu lengi? Hvar er hæstv. forsætisráðherra nú með talið sitt um gamaldags efnahagsráðstafanir, um inngrip ríkisvaldsins, um að pólitíkusar séu að koma með puttana í þetta? Ætlar ekki Alþingi að afgreiða þetta og er nokkuð annað að gera? Nei, auðvitað ekki. En er þá ekki heldur betur verið að grípa í taumana, er þá ekki heldur betur um gamaldags efnahagsaðgerðir og inngrip að ræða? Ég skyldi ætla það.

Við höfum á hverju ári lagt til að tekist yrði á við þennan vanda en ekkert hefur verið gert. Hann hefur versnað og versnað og versnað og er orðinn hættulegri og hættulegri og hættulegri. Það er einfaldlega vegna þess að þjóðarbúið er orðið svo viðkvæmt vegna hinna miklu erlendu skulda og vegna jafnvægisleysisins sem grefur um sig og festist í sessi, og það skyldi enginn maður líta á það sem grín að verðbólgan verður væntanlega tveggja stafa tala þegar árið 2008 verður gert upp. Spá fjármálaráðuneytisins frá því í apríl er orðin handónýt þar sem menn gerðu sér vonir um 8% verðbólgu á árinu. Það trúir því enginn maður lengur.

Það dugir ekki annað en að horfast í augu við veruleikann, viðurkenna mistökin, reyna að læra af þeim og lofa því að endurtaka þau aldrei aftur. Það vitlausasta af öllu sem menn gerðu núna væri að trúa því að með þessari miklu lántöku, jafnvel þó að hún takist vel og við fáum lán á sæmilegum kjörum, þá væri allt komið í lag, við gætum bara efnt til nýrrar þenslu- og skuldasöfnunarveislu. Þá fyrst værum við á hættulegri braut, það er hættulegur hugsunarháttur. Ég verð að taka undir með þeim hagfræðingum sem vara við því að þessar ráðstafanir eigi bara að ganga út á það að styrkja gengi krónunnar og nota gengið til að ná verðbólgunni niður og efna síðan í nýja veislu. Við getum ekki leyft okkur það. Við verðum að ná jafnvægi í viðskiptum þjóðarbúsins við útlönd og við þurfum helst að fara að borga niður skuldir, það er nefnilega veruleikinn, því að svo lengi sem við gerum það ekki og lagfærum ekki þessi hlutföll í okkar litla opna hagkerfi verður ástandið alltaf viðkvæmt. Varnaraðgerðirnar, tryggingarnar sem við erum að reyna að kaupa okkur, hvort sem þær eru með gjaldmiðlaskiptasamningum við aðra seðlabanka, ég tala nú ekki um beinar lántökur, verða dýrar, það mun kosta mjög mikið að verja þjóðarbúið gagnvart áhlaupum ef við náum ekki þessum hlutföllum í betra lag. Verkefnið er ærið sem fram undan er og það er langur og erfiður leiðangur fyrir höndum og það er mikill misskilningur að honum ljúki með þessu.

Það sem er að gerast er að nýfrjálshyggju- og einkavæðingartilrauninni á Íslandi er að ljúka með þungbærum afleiðingum. Hann er ósköp einfaldlega að renna sitt skeið á enda sá hugsunarháttur að við getum leyft okkur hvers kyns bruðl og þenslu og verðbólgu, flottræfilshátt og græðgi og jafnvel mært slíka hluti, kallað það útrás eða einhverjum ógurlega fallegum nöfnum og senda svo reikninginn í hausinn á börnunum okkar. Það er nefnilega þannig sem þetta virkar að það verður framtíðin sem ber þessar byrðar á sínum herðum.

Mestu skiptir að verja heimilin í landinu, að koma í veg fyrir að fasteignamarkaðurinn hrynji og fólk fari að missa húsin sín, að við náum að verja hérna fulla atvinnu og skapa aftur stöðugleika og sæmileg starfsskilyrði fyrir hið almenna atvinnulíf. Það á að hafa forgang, atvinnulíf okkar Íslendinga sjálfra, en ekki þjónkun við erlend auðfélög. Það skiptir öllu máli. Við verðum að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd og, eins og ég sagði, borga niður erlendar skuldir eins fljótt og mögulegt er. Ef við veljum hina leiðina áfram, ímyndum okkur að við getum búið til eitthvert góðæri, ég tala nú ekki um sem stendur undir nafni, einfaldlega með því að reka þjóðarbúið með halla og taka erlend lán, þá erum við að stefna í voða, jafnvel enn þá meiri en nú er, ósköp einfaldlega því sem heitir efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Þá er það bara þannig. Það er algjörlega nauðsynlegt, ef við ætlum að verja hér sjálfstætt, sæmilega öflugt hagkerfi, að við náum tökum á þessum hlutum og förum að þróa þá í rétta átt. Við getum ekki leyft okkur hitt. Við berum mikla ábyrgð gagnvart sjálfum okkur og samtímanum en auðvitað einkum og sér í lagi gagnvart framtíðinni.

Spurningunni um það hvort þessar varnarráðstafanir muni duga er ómögulegt að svara á þessari stundu. Mér segir svo hugur að þær muni draga sorglega skammt ef þær verða einar látnar nægja. Hvað ætlum við að segja við heimilin, við unga skulduga fólkið? Almenningur mun upplifa þessar aðgerðir fyrst og fremst sem varnaraðgerðir fyrir fjármálakerfið. Sumir segja á götunni: Nú, það er ekkert smálán sem á að taka til að bjarga bönkunum. Nú er það auðvitað ekki svo, af því að hér er fleira í húfi og fjármálakerfið er hluti af þjóðarbúskapnum í heild þannig að við verðum að horfa á samhengi hlutanna. En þannig óttast ég að margir muni upplifa þetta ef stjórnvöld sýna ekki í verki einhvern vilja til að styðja líka við bakið á þeim sem núna eru að mæta miklum erfiðleikum, ungt skuldsett fólk sem hefur fengið á sig núna á örfáum mánuðum þyngingu greiðslubyrði svo nemur tugum þúsunda króna. Við þekkjum örugglega öll í þessum sal systkini eða systkinabörn eða einhverja slíka sem eru í nákvæmlega þeirri stöðu. Farið þið og kíkið á greiðsluseðlana hjá einhverjum í fjölskyldum ykkar sem hafa nýlega keypt íbúð, eru með námslán á bakinu, tóku bílakaupalán fyrir nokkrum árum, sumt af þessu í erlendri mynt, og skoðið hvað hefur gerst síðasta hálfa árið eða svo. Ég held að það væri fróðlegt, hafi menn ekki gert það nú þegar, að kynna sér þetta þannig.

Herra forseti. Ég verð að segja alveg eins og er og kem þá aftur að upphafinu að ég hafði vænst svolítið kraftmeiri framsögu af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og að meira yrði lagt af mörkum hvað varðar umhverfi málsins af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er ákaflega einfalt frumvarp og greinargerðin vefst ekki fyrir mönnum, hún mundi ekki duga í heilt lestrarpóf í 3. bekk í grunnskóla, því að sæmilega læs nemandi væri löngu búinn með þetta áður en próftíminn væri úti, þetta er ósköp einfaldlega þannig. Mér finnst að hæstv. ríkisstjórn ætti að reyna að gera svolítið betur, ef ekki þá hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar þannig að við reyndum við afgreiðslu málsins að senda þau skilaboð héðan af Alþingi Íslendinga úr því að þau komu ekki úr Stjórnarráðinu að það væri til staðar samstilltur og einbeittur vilji til þess (Forseti hringir.) að vinna þjóðarbúið út úr þessum erfiðleikum. Það ætlum við okkur auðvitað að gera en ríkisstjórnin gerir það með hangandi hendi, það verður að segjast eins og er.