135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér er verið að boða lántöku til að styrkja stöðu fjármálakerfisins og reyna með þeim hætti að hafa áhrif á stöðu íslensku þjóðarinnar í heild sinni. Þetta er hins vegar lántaka sem mun kosta ríkið og þjóðina mikla fjármuni. Við þessu ástandi var varað í ræðum og riti áður en ríkisstjórnin virtist átta sig á því hvert stefndi.

Ég minni í því sambandi á ræður hæstv. fjármálaráðherra á sl. hausti þegar verið var að mæla fyrir fjárlögum ársins 2008 þar sem hæstv. ráðherra taldi að ekki þyrfti að óttast það sem við stöndum frammi fyrir núna. Hann gerði lítið úr þeim viðvörunarorðum sem féllu varðandi í hvað gæti stefnt á komandi ári. Nú verður ekki undan því vikist að reyna með öllum ráðum að styrkja fjármálakerfið hér. Það hefur verið gert með því að semja við seðlabankana á Norðurlöndum um að þar getum við fengið lán gegn íslenskum krónum og vissulega eru það jákvæð skref í því að styðja og efla trúverðugleika á fjármálakerfi okkar.

Hér erum við að afla heimildar um að taka stórt erlent lán, sennilega eitt það stærsta sem tekið hefur verið í Íslandssögunni, til þess m.a. að geta endurlánað það Seðlabankanum og einnig að opna fyrir heimildir um að hér megi lána á innlendum markaði með útgáfu skuldabréfa. Það liggur algjörlega ljóst fyrir, hæstv. forseti, að þjóðfélagið í heild er í varnarstöðu. Við erum að verja stöðu Íslands og við erum að reyna að verja stöðu heimilanna. Við erum að fást við verðbólgu sem mælist nú yfir 12% og hefur ekki mælst hærri mjög lengi og það er mikil óvissa um hvort hún náist niður eða í hvað stefnir í þeim efnum.

Þessi atriði munu bitna harkalega á íslenskum fjölskyldum, skuldsettum heimilum og fyrirtækjarekstri sem eiga í erfiðleikum með að fjármagna þær skuldbindingar sem gengist hefur verið undir á undanförnum árum. Eitt er dagljóst sem við stöndum frammi fyrir nú: Við erum að reyna að verja krónuna, hagkerfi okkar, en það er líka ljóst að það samhengi þurfum við að skoða betur á komandi missirum. Við neyðumst til að taka þar á. Að sjálfsögðu munum við í Frjálslynda flokknum styðja það mál sem borið er upp af ríkisstjórninni til þess að reyna að hafa jákvæð áhrif á að hér verði betra starfsumhverfi á komandi árum.

Það er eitt sem við verðum að horfa alveg ískalt á, við verðum að reyna að halda hér uppi atvinnu. Það væri afar erfitt, svo ekki sé meira sagt, að hér yrði mikið atvinnuleysi, ofan í þá stöðu sem við horfum á núna varðandi heimilin sem bera fjárskuldbindingar vegna verðbólgunnar. Þetta eru verkefnin sem fram undan eru, að ná niður verðbólgunni og styrkja efnahagskerfi okkar. Það mál sem hér er til umræðu er þáttur í því. Við verðum að horfa til þess að reyna með öllum ráðum að viðhalda hér sem mestri atvinnu. Það er engin hefð fyrir því í íslensku þjóðfélagi að búa við mikið og langvarandi atvinnuleysi. Það væri sá biti sem mundi gjörsamlega kollvarpa mörgum fjölskyldum í landinu ef svo færi. Við verðum að sameinast um það, hv. alþingismenn, að reyna með öllum ráðum að koma fram með tillögur og ábendingar sem duga til þess að efla atvinnustigið og tryggja að fólk hafi þá a.m.k. tekjur á móti þeim erfiðleikum sem það mætir. Það er alveg grundvallaratriði og við getum ekki leyft okkur ábyrgðarlausa pólitík í þessari stöðu um að berjast gegn því að reyna að tryggja hér fulla atvinnu. Við verðum að horfa á það með mjög jákvæðum hætti og getum ekki leyft okkur að standa í vegi fyrir framkvæmdum sem nauðsynlegar eru. Það á bæði við virkjunarframkvæmdir og álversframkvæmdir og aðra atvinnuuppbyggingu sem við þurfum að standa að hér á landi.

Ég segi það alveg hiklaust að í núverandi stöðu þarf fleiri jákvæði merki í þessu þjóðfélagi, fleiri áfanga um að við ætlum okkur að auka tekjurnar og halda uppi atvinnustiginu. Í því sambandi lít ég alveg hiklaust til þess að hægt sé að auka þorskveiðarnar til þess að reyna að styrkja landsbyggðina þar sem skakkaföllin geta orðið enn þá verri en hér á suðvesturhorninu. Það verði enn þá þrengri staða og landsbyggðin má alls ekki við því að þurfa að takast á við það.

Við eigum ekki annan kost, hæstv. forseti, en að reyna að sameinast um að berjast gegn þeirri þróun sem verið hefur á undanförnum missirum. Það breytir ekki því að ríkisstjórnin hefur ekki hlustað á þær viðvaranir sem komu fram þegar á síðasta ári á haustdögum um það í hvaða erfiðleika við gætum verið að stefna. Það þýðir hins vegar ekki endalaust að rífast um það sem orðið er. Við verðum að horfa til framtíðar og ábyrgð okkar þingmanna, hvar í flokki sem við stöndum, er sú að reyna að tryggja að sameiginlega komumst við út úr þeim skakkaföllum sem við höfum lent í. Til þess þurfum við að horfa til framtíðar og þora að taka ýmsar ákvarðanir sem geta verið umdeildar.