135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[10:57]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði að umtalsefni tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá því í febrúar. Í þeim var gert ráð fyrir mjög óverulegri lántöku sem hefði alls ekki dugað til að ná þeim árangri sem nauðsynlegur var til að skapa stöðugleika og tiltrú á getu ríkisins til að standa að baki fjármálalegum og efnahagslegum stöðugleika í landinu.

Hv. þingmaður neitar að horfast í augu við grundvallarstaðreyndir efnahagsmála í opnu, alþjóðlegu hagkerfi og talar eins og hér séu einhver úrræði sem stjórnvöld hafi til að takmarka frelsi fólks til að taka eigin ákvarðanir á eigin forsendum. Við höfum búið til efnahagsumhverfi þar sem fólk og (Gripið fram í.) fyrirtæki eru algjörlega frjáls að aðgerðum sínum á markaði. Við búum hins vegar við gjaldmiðil sem auðvelt er að eiga viðskipti með og á öðrum forsendum en þeim að gjaldmiðillinn sé að endurspegla verðmætasköpun í hagkerfinu. (Gripið fram í.) Um þetta hafa margir rætt og hv. þingmaður getur alveg reynt að snúa þessu málum þannig að það sé Samfylkingin ein sem hafi áhyggjur af núverandi skipan gjaldmiðilsmála, en þannig er nú blessunarlega að þeirri skoðun deila mjög margir. Ég vil minna á flesta fremstu hagfræðinga landsins og ágætt að hv. þingmaður gefi mér færi á því í ræðustól Alþingis að benda á þá víðtæku samstöðu sem myndast hefur um það í landinu, alls staðar annars staðar en í hans eigin flokki, að núverandi skipan gjaldmiðilsmála sé ekki á vetur setjandi. Ég bendi á flesta af fremstu hagfræðingum landsins og nefni t.d. ágætan leiðara Þorsteins (Gripið fram í.) Pálssonar þar sem hann bendir á að langtímamarkmiðið hljóti auðvitað að þurfa að endurskoðast í ljósi aðstæðna upp á síðkastið.

Hins vegar hefur hv. þingmaður reyndar lagt til norræna krónu, (Forseti hringir.) það er tillaga sem hann hefur lagt til til heimabrúks. (Forseti hringir.) Það er athyglisvert að hann hefur ekki treyst sér að senda fulltrúa (Forseti hringir.) sína með þá hugmynd til útlanda.