135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

heimild ríkissjóðs Íslands til sérstakrar lántöku á árinu 2008.

640. mál
[11:05]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki notað þau orð að ræða hæstv. ráðherra hafi verið innihaldsrýr eða slöpp. Ég gagnrýndi hins vegar hæstv. ráðherra fyrir að nota ekki tækifærið og flytja hér þróttmikla og kraftmikla ræðu til þess að reyna að blása mönnum kjark í brjóst og reyna að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að það væri einbeittur og staðfastur vilji til staðar í ríkisstjórn og á Alþingi til að takast á við þessa hluti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst frammistaða hæstv. ríkisstjórnar — sem er hér fjarstödd öll eins og hún leggur sig nema hæstv. fjármálaráðherra sem mælir fyrir málinu — ekki benda til þess að ríkisstjórnin taki þetta mjög alvarlega eða telji þetta sérstaklega mikilsvert mál.

Hæstv. fjármálaráðherra, herra forseti. Rót vandans liggur ekki í bandarísku undirmálslánunum hvað Ísland varðar. Það er ósköp einfaldlega miklu síðar til komið en þau innlendu vandamál sem hafa blasað við, varað hefur verið við og hvatt hefur verið til að tekist væri á við síðustu þrjú til fjögur ár. Strax á árinu 2005 fóru erlendir greiningaraðilar og ráðgjafarstofnanir að vara við og hvetja íslensk stjórnvöld til þess að takast á við jafnvægisleysið, Standard & Poor´s og margir fleiri aðilar. Hverjum manni var ljóst að viðskiptahallinn og vaxandi verðbólguþrýstingur mundi fyrr eða síðar leiða til mikilla vandræða og skapa mikla hættu hér í hagkerfinu ef ekki yrði tekist á við það. Síðan bætast að sjálfsögðu þessi óhagstæðu ytri skilyrði við og engum manni dettur í hug að neita því að kveisan í hinum alþjóðlega fjármálamarkaði, að hækkun olíuverðs og fleiri slíkri hlutir gera þetta viðfangsefni erfiðara. En ástandið er jafnbrothætt og raun ber vitni vegna þess að við stóðum veikt fyrir, við höfðum vanrækt að taka á hlutum sem hefði fyrir löngu þurft að vera búið að takast á við.

Við skulum vona að þessar ráðstafanir og helst fleira sem þeim þyrfti að tengjast nægi okkur til að skapa (Forseti hringir.) trúverðugleika, það verði nógu sterk skilaboð vegna þess að þetta snýst að lokum að langmestu leyti um það að við endurheimtum (Forseti hringir.) glataðan trúverðugleika í hagstjórn.