135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[12:12]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að endurtaka ræðu mína um frumvarp til fiskeldis en hér eiga við öll þau sömu sjónarmið og ég færði þar fram. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar að það að opinber fyrirtæki geti stofnað fyrirtæki inn á greinar sem þau eru að sinna í stjórnsýslunni sé mikið umhugsunarefni. Það er það hjá mér vegna þess að til eru víti í þeim efnum sem þarf að varast. Viðkomandi stjórnvald getur orðið háð þessum fyrirtækjum, getur lent í erfiðri stöðu gagnvart fyrirtækjum sem eru í samkeppni við þau og þar fram eftir götunum, verða vanhæf og svo mætti lengi telja. Við þekkjum vond dæmi þessa úr stjórnsýslunni. Það væri miklu betur ef þau sprotafyrirtæki, sem einkum er verið að hugsa til, sprotafyrirtæki í þessum verkefnum sem þarna er verið að fjalla um sem eru fiskrækt og fleira og fleira fengju miklu frekar styrki frá ríkinu, rannsóknarstyrki eða eitthvað slíkt, en stjórnvald sæti ekki í hlutafélaginu sem hluthafi. Það held ég að sé mikið umhugsunarefni og ég hygg að umboðsmaður Alþingis hafi einhverju sinni bent á þetta.

En hér er sem sagt aftur dæmi um að verið er að bæta úr flaustri og flumbrugangi við breytingar á Stjórnarráðinu í vetur og það er staðfest af hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að tími gafst ekki lengur til að gaumgæfa málið. Ég get eflaust sagt að allar þær breytingartillögur sem lagðar eru til í einum 11 liðum og mörgum undirliðum staðfesti það að ekki sé unnið í anda reglna um vandaða frumvarpssmíð. Ég ítreka enn og aftur tilvísanir mínar í handbókina sem ég nefndi áðan og vil sérstaklega geta þess að mál eiga að koma fram í byrjun þings svo þingnefndum gefist nægilegur tími til að fara gaumgæfilega yfir mál og að frumvörp sem eru lögð fram að vori eigi að fara í 1. umr. og frestast síðan fram á haustið. Það var tilgangur breyttra þingskapa. Aðalatriðið með frumvarpssmíðinni er að kanna hvort ný lagasetning sé nauðsynlegt en fyrst og síðast og grundvallaratriðið í slíkri samningu er að hafa samráð við undirbúning að gerð frumvarpanna, pólitískt samráð, faglegt samráð milli ráðuneyta og samráð við hagsmunaaðila og almennings því að betur sjá augu en auga. Þess hefur orðið vart og ekki bara vart, það hefur komið upp margsinnis að óvönduð frumvörp hafa leitt til misskilnings, hafa leitt til tortryggni og hafa jafnframt orðið til réttmætrar gagnrýni.

Ég segi, herra forseti, að hin nýju þingsköp virka ekki eins og þeim er ætlað að virka ef frumvarpssmíðin er óvönduð af hálfu framkvæmdarvaldsins og því beini ég enn og aftur þeim tilmælum til hæstv. forseta að frá Alþingi fari tiltal til ráðuneytanna um að vinna samkvæmt reglum handbókarinnar á komandi þingi.