135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

flutningur stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði o.fl. til Fiskistofu.

531. mál
[12:17]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar fyrir að gera góða grein fyrir málinu og raunar þessum þremur málum og þeim breytingartillögum sem unnar hafa verið í nefndinni. Eins og fram kemur þurfti ég vegna annarra fundarhalda að vera fjarstaddur við afgreiðsluna sjálfa en held að málin séu öll almennt til bóta og þá ekki síður þær breytingar sem þau hafa tekið í meðförum nefndarinnar.

Raunar er það svo um skipan ýmissa þátta hjá framkvæmdarvaldinu að þar er auðvitað eðlilegt að ráðherrann sem með málaflokkinn fer og þarf að uppfylla þær lagaskyldur sem á málaflokknum hvíla hafi talsvert mikið að segja um það hvernig hann kýs að skipa þeim þætti málsins sem að honum snýr, sem varðar það að framkvæma lögin og ná þeim árangri sem við í þinginu viljum ná. Sú þróun hefur auðvitað verið í okkar löggjöf almennt að í æ ríkari mæli látum við ýmis útfærsluatriði og ýmis smærri atriði sem snerta framkvæmdina vera í höndum framkvæmdarvaldsins en reynum í þinginu að einbeita okkur meira að meginlínum og aðaláherslum í lagasetningum.

Það skýtur þess vegna nokkuð skökku við og verður að teljast sérkennilegt að í því frumvarpi sem við erum með til umfjöllunar er sérstaklega kveðið á um það með hvaða hætti skuli skipa tveimur störfum í stjórnsýslunni, tveimur störfum sem verið er að flytja á milli stofnana. Kveðið er á um það að þessi tvö störf skuli vera á sérstöku sviði í tiltekinni stofnun og undir hvern það svið skuli heyra. Nú er auðvitað verið að koma málum fyrir eins og ráðherra telur að best verði á kosið og ég tel að hann hafi besta aðstöðu til að leggja mat á það með hvaða hætti þeim sé best fyrir komið, og treysti hæstv. ráðherra fullkomlega fyrir því. Ég tel hins vegar að ráðherrann hafi öll þau úrræði sem hann þarf til að hafa þessa skipan mála með þeim hætti sem hann telur besta og sjá svo til að á þessari viðkomandi stofnun, Fiskistofu, sé málum og sviðum skipað eins og hæstv. ráðherra telur að þjóni best þeirri framkvæmd sem hann vinnur að í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

En ég tel ekki að vel fari á því að kveðið sé á um þá skipan í lögum og ég held að það sé ekki í anda þess sem við erum að gera í þinginu og í raun og veru andstætt þeirri almennu lagaþróun sem við höfum haft að við séum að setja inn sérstök ákvæði um það að tveir af rúmlega 80 starfsmönnum einnar tiltekinnar ríkisstofnunar skuli mynda ákveðið svið og vera á tilteknum stað í skipuriti viðkomandi stofnunar.

Ég geri engar athugasemdir við fyrirkomulagið og tel að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé best dómbær um hvernig það eigi að vera en tel miður að hafa þetta bundið í lögin. Ef mat ráðherrans á þessari skipan breytist seinna eða annarra ráðherra í framtíðinni er einfaldlega óheppilegt að afgreiða þurfi sérstakt lagafrumvarp til að gera óverulegar breytingar á innra skipulagi einnar ríkisstofnunar. Ég teldi þess vegna almennt til bóta fyrir lagasetninguna og vandaða og góða starfshætti að lengra væri gengið í þeim breytingum sem gerðar voru á þeim tillögum sem hér komu fram — þetta verði einfaldlega falið Fiskistofu og þar með á vald ráðherrans en ekki kveðið á um þessa skipun í frumvarpinu heldur gott að málið kæmi aftur til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að fara yfir þetta smáatriði að ég tel.