135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

Fiskræktarsjóður.

554. mál
[12:22]
Hlusta

Frsm. sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um Fiskræktarsjóð frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Þetta er hið þriðja frumvarp af svipuðum toga þannig að við vorum með sömu gesti í heimsókn fyrir nefndina eins og fyrr er talið auk þess sem Friðrik Sophusson frá Landsvirkjun kom einnig til nefndarinnar. Umsagnir bárust auk þess frá 14 aðilum.

Með þessu frumvarpi er lagt til að settar verði skýrar reglur um hlutverk og stöðu Fiskræktarsjóðs en nauðsynlegt þykir að breyta ákvæðum laga um sjóðinn sem er að finna í eldri lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi áfram tekjur af 2% gjaldi af veiði í ám og vötnum en að gjaldtöku af tekjum af sölu raforku verði aflétt.

Á fundum sínum ræddi nefndin um skipun stjórnar sjóðsins en samkvæmt gildandi lögum er núverandi stjórn skipuð sex nefndarmönnum og með frumvarpinu er lagt til að þeim verði fækkað í fimm. Þannig verður einn nefndarmaður tilnefndur af Landssambandi fiskeldisstöðva í stað tveggja tilnefndra af Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva. Telur nefndin það eðlilegar breytingar samhliða því að með frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskræktarsjóður dragi úr eða hætti stuðningi við fiskeldi en tekur fram að stuðningur við fiskeldi er alls ekki útilokaður.

Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að Fiskræktarsjóður ætti einungis að veita lán og styrki til framkvæmda í ám og vötnum sem heimilaðar hafa verið af lax- og silungsveiðisviði Fiskistofu verði frumvarp um flutning stjórnsýslu og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði að lögum. Telur nefndin að þessi ábending sé byggð á réttmætri forsendu en telur þó vart nauðsyn á því að slíkt sé bundið í lög þar sem að í úthlutunarreglum sjóðsins eða reglugerð ráðherra mætti skilyrða greiðslu í þeim tilvikum að framkvæmd sem ákveðið er að styrkja sé leyfisskyld þannig að ekki komi greiðsla fyrir hana fyrr en leyfi hefur verið veitt. Þá má einnig vísa til 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins þar sem segir að heimilt sé að skilyrða úthlutanir við að úthlutunarhafar geri grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum stjórnar Fiskræktarsjóðs.

Fyrir nefndinni komu einnig fram þau sjónarmið að ákvarðanir Fiskræktarsjóðs þyrftu að vera kæranlegar til ráðherra en í frumvarpinu er lagt til að ákvarðanir sjóðsins séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Misjafnt er hvort ákvarðanir um úthlutanir styrkja úr sjóðum eru kæranlegar til ráðherra. Telur nefndin að þrátt fyrir að stjórn sé bundin af reglum stjórnsýslulaga við meðferð mála og sé undir eftirliti ráðherra verði að telja eðlilegt að unnt sé að kæra ákvarðanir sem þessar enda veiti það stjórn sjóðsins ákveðið aðhald við ákvörðun um styrkveitingar til rannsóknar- og vísindaverkefna. Leggur nefndin því til að ákvæðið í lokamálslið 8. gr. frumvarpsins um að úrskurðir nefndarinnar séu endanlegir á stjórnsýslustigi falli brott.

Á fundum nefndarinnar kom fram að gjaldtakan af tekjum af sölu raforku, sem lagt er til að verði aflétt, hefði ekki samrýmst nægilega vel þeim breytingum sem urðu á raforkumarkaðnum þegar samkeppni var komið á í raforkusölu. Þá kom einnig fram að gjaldið hefði verið talið vera bætur fyrir það tjón er nýting á vatnsafli til raforkuframleiðslu hefði valdið á veiði og fiskrækt í ám og vötnum en raforkufyrirtækjum er skylt að bæta það tjón sem þau valda að fullu samkvæmt ákvæðum í vatnalögum og lax- og silungsveiðilögum og almennum reglum skaðabótaréttar. Telur nefndin því að sú tilhögun sem lögð er til í frumvarpinu sé til þess fallin að mæta sjónarmiðum allra sem í hlut eiga og tryggja nauðsynlegan starfsfrið um sjóðinn.

Nefndin leggur einnig til lagfæringar er varða orðalag í 6. gr. um uppkvaðningu úrskurða Fiskistofu vegna kæru veiðiréttarhafa eða veiðifélags á álögðu gjaldi af veiðitekjum. Samkvæmt stjórnsýslulögum er stjórnvaldi skylt að rökstyðja úrskurði sína skriflega og því óþarft að taka það sérstaklega fram. Nefndin leggur auk þess til smávægilegar lagfæringar sem varða tilvísanir í lagagreinar í ákvæðum frumvarpsins og einnig breytingu á 8. gr. þar sem fjallað er um að Fiskræktarsjóði sé heimilt að afla umsagnar Matvælastofnunar um umsóknir um lán eða styrki en við tilfærslu verkefna til Fiskistofu samkvæmt frumvarpi á þskj. 832, 531. máli, mun Fiskistofa, ef frumvarpið verður að lögum, veita þessar heimildir til framkvæmda í ám og vötnum í samræmi við 33. gr. laga um lax- og silungsveiði.

Þá komu fram upplýsingar um að sú 270 millj. kr. eingreiðsla sem bæta ætti sjóðnum upp þann tekjumissi sem frumvarpið hefði í för með sér kæmi ekki úr Jarðasjóði heldur ríkissjóði og leggur nefndin því til breytingar á ákvæði til bráðabirgða í þá veru. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á þskj. 1130. Atli Gíslason er samþykkur áliti þessu með fyrirvara. Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Karl V. Matthíasson, Gunnar Svavarsson, Kjartan Ólafsson, Birkir Jón Jónsson, Jón Gunnarsson, Grétar Mar Jónsson og Atli Gíslason með fyrirvara eins og fyrr segir