135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[12:55]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég stend að nefndaráliti utanríkismálanefndar. Nefndin er einróma í afstöðu sinni um að leggja til samþykkt þessarar þingsályktunartillögu. Ég vil engu að síður fara nokkrum orðum um fullgildingu þessa samnings í formi þingsályktunartillögu. Ég kaus að standa að álitinu án fyrirvara þó að ég hafi vissulega ákveðna fyrirvara við framkvæmd þessara mála. Hitt er mér mjög vel ljóst að Palermó-samningurinn svonefndi og viðleitni alþjóðasamfélagsins til að bindast samtökum um að vinna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi eru auðvitað mjög mikilvæg. Þessi barátta er reyndar hafin og vinna á vegum Sameinuðu þjóðanna hófst áður en árásirnar á tvíburaturnana áttu sér stað, áður en það sem síðar hefur gengið undir nafninu stríð gegn hryðjuverkum hófst en það hefur eiginlega yfirskyggt alla aðra baráttu gegn glæpum á alþjóðavísu á seinni árum.

Veruleikinn er sá að alþjóðleg, skipulögð glæpastarfsemi, mafíustarfsemi, sem hlýtur að mega kalla því nafni, er stórt vandamál og hún teygir anga sína víða um allan heim. Við Íslendingar förum ekki einu sinni varhluta af henni. Það er því miður alveg ljóst að á köflum hefur borið á því að angar slíkra evrópskra samtaka teygi sig alla leið hingað. Það er vitað að tilteknir hópar frá hinum Norðurlöndum eða frá ríkjum austar í Evrópu hafa jafnvel reynt að ná hér fótfestu og koma sér upp starfsemi til að halda utan um og passa upp á hagnað sinn af neðanjarðarstarfsemi, ólöglegri starfsemi. Hér er það einkum klámiðnaðurinn og fíkniefnasala sem í hlut eiga. Ég held sem betur fer að við séum að mestu laus við aðra anga þeirrar starfsemi eins og umfangsmikið mansal þó að auðvitað komi það okkur við líka t.d. í þeim tilvikum þegar fólk er flutt hingað inn í landið til að starfa í klámiðnaðinum og er gert út af slíkum samningum.

Palermó-samningurinn er ekki síður mikilvægur vegna þess að fyrir utan að vera þessi víðtæki samningur tæplega 140 ríkja sem nú hafa fullgilt hann þá er hann líka móðursamningur bókana sem honum tengjast og eru sumar hverjar ákaflega mikilvægar. Sá sem hér stendur hefur lagt á það áherslu og spurst fyrir um það hvað líði fullgildingu slíkra bókana af okkar hálfu og þá á ég einkum við bókunina til að koma í veg fyrir og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna. Ísland hefur undirritað þessa bókun, gerði það sama dag og samningurinn sjálfur var undirritaður árið 2000 en fullgilding hennar mun nú vera í undirbúningi. Þá má einnig nefna bókun gegn ólöglegum innflutningi fólks land-, sjó- og loftleiðis. Sú bókun hefur verið undirrituð af Íslands hálfu þó að það vandamál liggi kannski sem betur fer að mestu leyti fjær okkur.

Þriðja bókunin um ólöglega framleiðslu á verslun með skotvopn, hluti þeirra og íhluti og skotfæri hefur einnig verið undirrituð af Íslands hálfu nokkru síðar en hinar en enn sem komið er mun ekki hafinn undirbúningur að því að fullgilda hana. Það er alveg augljóst mál að til þess að Ísland geti fullgilt þessar bókanir, sem ég er mikill áhugamaður um, þá þarf að sjálfsögðu að fullgilda móðursáttmálann sjálfan.

Það er alveg augljóst mál að Ísland getur ekki leyft sér þann munað að trúa því og treysta að við séum varin fyrir því að angar slíkrar starfsemi teygi sig hingað hvort sem það er með beinum hætti að skipulögð glæpasamtök geri hér út eða að við verðum stoppistöð eða hlekkur í lengri keðju, t.d. í því tilviki þegar slík samtök þvo illa fengið fé. Við þurfum að sjálfsögðu að innleiða nauðsynlegar ráðstafanir og takast á við þá hluti.

Í öllum aðalatriðum er ég að sjálfsögðu sammála því að við Íslendingar eigum að vera með í þessari viðleitni alþjóðasamfélagsins til að takast á við og berjast gegn fjölþjóðlegri skipulegri glæpastarfsemi og skárra væri það nú, nema hvað. Hitt er svo annað mál að framkvæmd þessara mála verður auðvitað ekki slitin úr samhengi við ýmislegt sem hefur verið að gerast og er að gerast í alþjóðasamfélaginu. Það vekur líka upp ýmsar spurningar og álitamál sem menn verða að horfast í augu við. Það þarf að setja því mörk og setja um það skýrar leikreglur að lögreglusamvinna og aðgerðir ríkja — þótt í góðum tilgangi séu og yfirlýst markmið þau að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi — séu ekki þannig framkvæmdar að þær skerði úr hófi friðhelgi einkalífs, persónufrelsi, ferðafrelsi, fjármálalegt sjálfstæði og annað í þeim dúr. Hér þurfa menn nefnilega að kunna fótum sínum forráð og það hafa látið á sér kræla mjög ískyggilegar tilhneigingar til að réttlæta það, t.d. með vísan til mikilvægis þess að berjast gegn hryðjuverkum, að unnt sé að skerða helg mannréttindi. Menn geti jafnvel stytt sér leið í þeim efnum hvað það varðar að slíkt sé ætíð byggt á lögmætisreglum. Menn eiga ævinlega kost á réttlátri málsmeðferð. Þeir eiga kröfu á að mál þeirra séu í öllum tilvikum rannsökuð og upplýst og geta hreinsað mannorð sitt ef þeir eru hafðir fyrir rangri sök o.s.frv.

Mér er vel ljóst að það snýr ekki að þessum samningi neitt sérstaklega og jafnvel síður en öðrum málum sem Alþingi hefur haft og mun hafa til umfjöllunar og tengist ýmsum ráðstöfunum, bæði pólitískum ákvörðunum, aðild að samningum og lagabreytingum hér og lúta að baráttu gegn hryðjuverkum og öðru slíku. En mörkin milli þessara hluta eru ekki alltaf ljós. Þess vegna vil ég koma á framfæri þeim almennu varnaðarorðum sem ég kýs að mæla í þessum efnum og mun jafnvel ítreka síðar þegar önnur mál á dagskránni hafa komið til umræðu. Ég er einfaldlega, eins og margir fleiri, orðinn mjög hugsi yfir því hvernig þessi mál hafa þróast núna síðustu sex, sjö árin að segja má, að því verður ekki á móti mælt að umtalsverð tímamót og straumhvörf urðu í þessum efnum með harmleiknum sem þar átti sér stað 11. september 2001 og atburðunum sem hafa siglt í kjölfarið. Það er rétt og skylt að Alþingi og þær þingnefndir sem hafa þessi mál til umfjöllunar — sem er faglega séð þá fremur allsherjarnefnd en utanríkismálanefnd sem auðvitað kemur að þessu fyrst og fremst í því skyni að leggja til fullgildingu þessa samnings — hafi þessi mál alltaf í huga.

Að þessu sögðu ítreka ég að ég er samþykkur máli þessu og tel mikilvægt að við stöndum myndarlega að fullgildingu þess og framkvæmd. Ég vona að bókanirnar um mansal og ólöglega flutninga fólks verði fullgiltar sem fyrst og að við beitum þeim síðan þar sem við á. Í okkar tilviki er það ekki síst til þess að hindra eins og nokkur kostur er að ánauðugt fólk sé flutt inn í landið í þeim skammarlega tilgangi að selja aðgang að líkama sínum eða taka þátt í einhverjum hliðstæðum athöfnum sem tengjast klámvæðingunni eða kynlífsiðnaðinum eða fíkniefnamarkaðnum eða öðru því sem hér getur átt undir. (Gripið fram í.)

Af því að það var einhver svo vinsamlegur að kalla fram í mál mitt áðan að það þyrfti að efla ríkislögreglustjórann þá verð ég að leyfa mér að hryggja frammíkallanda með því að ég held að vegurinn til himna í þessum efnum liggi ekki í gegnum hinar breiðu dyr og hina miklu fjármálahít ríkislögreglustjórans. Ég held að það sé akkúrat þveröfugt, að við þurfum að takast á við rætur þessa vanda og glíma við hann í gegnum skilning á mannlega þættinum og í gegnum almenn og skilvirk ákvæði í lögum þar sem við þurfum að taka betur til hendinni, því miður. Það hefur enn ekki verið búið um það með fullnægjandi hætti í landslögum að unnt sé að glíma við ýmsa anga þessara mála og þá kannski þeirra sem líklegastir eru til að teygja sig hingað. Ég held að löggjöf um peningaþvætti sé fullnægjandi og viðbúnaður íslenskra fjármálastofnana og eftirlitsaðila sé í lagi í þeim efnum. En þegar kemur t.d. að löggjöf um vændi og viðbúnað til að takast á við mansal og vinna úr málum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga þá skortir enn verulega upp á að við höfum tekið til heima hjá okkur. Það er alltaf mikilvægast í þessum efnum. Það er góðra gjalda vert að fullgilda sáttmála af þessu tagi en þar með má ekki líta svo á að málið sé leyst og ekkert þurfi frekar að aðhafast. Við þurfum að takast á við rætur þessara vandamála þar sem þær liggja, að svo miklu leyti sem það er í okkar valdi, með því að byrja á því að taka til í okkar eigin húsi, hafa löggjöf okkar og stuðning við þolendur þannig að sómi sé að.