135. löggjafarþing — 109. fundur,  27. maí 2008.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn.

558. mál
[13:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar skýringar og svo sem ekki ástæða til að leggja í miklar tölur um þetta. Ég get samt ekki stillt mig um að segja að mér þótti ræða hans nú og þetta síðara andsvar einhver ágætasta áróðursræða fyrir aðild að Evrópusambandinu sem ég hef lengi heyrt. Þingmaðurinn er tilbúinn að horfa á þær efnisreglur sem felast í orkupakkanum en telur eðlilegt að tekið sé tillit til sérstöðu Íslands og landfræðilegrar sérstöðu Íslands við innleiðinguna og að því leyti hefðum við átt að fá sérreglur eða undanþágu.

Um það er ég alveg sammála honum. En málið er hins vegar það að vegna þess að við vorum ekki aðilar að Evrópusambandinu þá komum við ekki að því borði að marka umfang undanþágnanna sem eru í tilskipununum á sínum tíma og urðum að taka pakkann eins og hann leit út og kom af skepnunni. Það er nákvæmlega sú aðstaða, þ.e. að sitja við borðið í Evrópusambandinu, sem hefði getað veitt okkur möguleika til að fá inn sérstök ákvæði um nákvæmlega þessa þætti sem orka kannski mest tvímælis gagnvart okkur í þessu máli sem er hin landfræðilega sérstaða og fjarlægð hins íslenska markaðar frá orkumarkaðnum annars staðar í Evrópu.

En vegna þess að við sátum ekki við borðið við gerð reglnanna þá komum við ekki að því að marka umfang undanþágnanna eða marka umfang þeirra heimilda sem ríki hafa til þess að víkja frá hinu almenna kerfi um innleiðingu reglnanna. Ég þakka hv. þingmanni bara fyrir þessa ágætu útleggingu á skynsemi þess að sitja við borðið í Evrópusambandinu.