135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:02]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Um þessar mundir er liðið eitt ár frá myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, Þingvallastjórnarinnar. Á þessum fyrsta þingvetri hefur ríkisstjórnin lagt fram mikinn fjölda þingmála til að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu sinni og hafa nú yfir 80% þeirra málefna sem þar eru tiltekin ýmist verið fullafgreidd eða komin í farveg til úrvinnslu. Þingmál frá ríkisstjórninni eru orðin tæplega 150 að tölu, þar af mörg viðamikil, stefnumarkandi mál t.d. á sviði skóla- og heilbrigðismála, orku- og auðlindamála, félags- og velferðarmála. Svo halda vinir okkar í stjórnarandstöðunni því fram að þessi ríkisstjórn sé ekki neitt að gera, (Gripið fram í.) þvílíkur útúrsnúningur, hv. þingmaður.

Á liðnu vori beitti ríkisstjórnin sér einnig fyrir margháttaðri endurskipulagningu í Stjórnarráði Íslands og ýmsum stofnunum og því umbótastarfi verður haldið áfram út kjörtímabilið. Ánægjuleg er einnig sú breyting sem gerð var á þingsköpum Alþingis í vetur og hefur stórbætt yfirbragð þingsins og vinnubrögð þess.

Herra forseti. Að undanförnu hefur íslenska þjóðarbúið orðið fyrir ófyrirsjáanlegum búsifjum vegna hræringa á alþjóðamörkuðum. Þessar hremmingar eiga upptök sín í verðhruni á svokölluðum undirmálslánamarkaði í Bandaríkjunum og hafa haft mikil áhrif um allan heim. Samtímis hefur verð á ýmsum nauðsynjum eins og eldsneyti og matvælum stórhækkað á heimsmarkaði. Áhrifa alls þessa hefur óhjákvæmilega gætt hér á landi, m.a. í innfluttum verðhækkunum sem munu rýra lífskjör okkar. Lausafjárskortur og almennt versnandi staða á alþjóðavettvangi leiddi til þess að íslensku bankarnir brugðust við með því að draga úr útlánum auk þess sem svokölluð vaxtamunarviðskipti gagnvart erlendum aðilum stöðvuðust nánast. Þetta olli mikilli lækkun á gengi íslensku krónunnar.

Það var vissulega reiknað með því að gengi íslensku krónunnar mundi láta undan síga þegar um hægðist í efnahagslífinu enda mat margra að gengi hennar hafi verið hærra um nokkurt skeið en efnahagslegar forsendur gáfu tilefni til. Hins vegar áttu menn ekki von á þessari viðbótargengislækkun vegna aðstæðna á erlendum mörkuðum en hún hefur valdið því að verðbólga er nú meiri en vænst var. Á sama tíma og ytri aðstæður þjóðarbúsins hafa versnað að þessu leyti sér fyrir endann á ýmsum viðamiklum framkvæmdum hér á landi bæði í orkumálum og uppbyggingu stóriðju sem og í byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Af þessu leiðir að óhjákvæmilega mun hægja á hjólum íslensks efnahagslífs á næstunni. Það var ekki síst í ljósi þessa að ákveðið var við afgreiðslu fjárlaga yfirstandandi árs að auka opinberar framkvæmdir í landinu til að vega upp á móti fyrirsjáanlegum samdrætti í einkageiranum. Þó að þetta hafi verið gagnrýnt hér á sínum tíma af stjórnarandstöðunni á þetta eftir að koma sér vel síðar á árinu.

Markmið ríkisstjórnarinnar er að leita leiða til þess að sú efnahagslega aðlögun sem nú er hafin gerist án þess að samdráttur verði verulegur og samhliða að tryggja sem best atvinnu í landinu. Þessi staða kallar á samstilltar aðgerðir og samráð stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga um hvernig ná megi stöðugleika á ný og er það samráð þegar hafið. Einnig er mikilvægt að efla varnir og viðbúnað þjóðarbúsins út á við eins og unnið er að. Tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamningur milli seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Íslands voru mikilvægt skref í því efni. Frekari aðgerðir til að styrkja erlenda lausafjárstöðu eru í undirbúningi og er frumvarp með lántökuheimildum komið til meðferðar hér á Alþingi. Mikilvægt er að allir átti sig á því að lántaka af þessu tagi er ekki hugsuð til að fjármagna rekstur ríkisins eða framkvæmdir á þess vegum heldur til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar, varasjóð landsmanna.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson virðist ekki hafa áttað sig á þessum grundvallarstaðreyndum né heldur því að það er ekki endilega gert ráð fyrir því að eitt stórt lán verði tekið í útlöndum í þessu skyni heldur er verið að auka svigrúm ríkissjóðs og möguleika hans á að afla sér lánsfjár bæði innan lands og utan í þessu skyni.

Góðir áheyrendur. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að kjarasamningar grundvallist á hóflegum almennum kauphækkunum en jafnframt verulegri hækkun lægstu launa. Slíkt stuðlar í senn að auknum jöfnuði og betra jafnvægi í efnahagsmálum. Af þessari ástæðu boðaði ríkisstjórnin víðtækar aðgerðir í skattamálum, húsnæðismálum, starfsmenntamálum og fleiru til að greiða fyrir gerð kjarasamninga til þriggja ára á almenna markaðnum í febrúar sl. Um helgina var gengið frá nýjum samningi ríkisins og BSRB á mjög ábyrgum nótum og vonandi takast svipaðir samningar við önnur samtök opinberra starfsmanna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson verður að eiga það sem hann á. Sem forustumaður BSRB hefur hann staðið sig afar vel hvað þetta varðar á undanförnum vikum og tekist á við þetta mál af mikilli ábyrgð. Hann hefur sýnt gott fordæmi.

Í kjölfar kjarasamninganna í febrúar mun persónuafsláttur hækka um 7 þús. kr. á næstu þremur árum umfram almenna verðuppfærslu og skattleysismörk hækka þar af leiðandi um 20 þús. kr. á mánuði. Þá verða skerðingarmörk barnabóta hækkuð verulega og tekjuskerðingarhlutföll jafnframt lækkuð. Enn fremur hækka bæði vaxta- og húsaleigubætur umtalsvert auk þess sem stimpilgjöld falla niður vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign. Loks verður tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 18% í 15% frá og með yfirstandandi tekjuári.

Nýr vandi í efnahagsmálum hefur nokkuð raskað þeim forsendum sem kjarasamningar á almenna markaðnum voru reistir á. Það er hins vegar mikilvægt að vinna að lausn þessa vanda með sömu meginsjónarmið í huga þannig að niðurstaðan verði til þess að endurheimta stöðugleikann í íslensku efnahagslífi svo fljótt sem verða má.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja með því m.a. að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Fyrsta skrefið í þessa átt var stigið þegar í fyrravor með samþykkt Alþingis á lögum sem kváðu á um að atvinnutekjur ellilífeyrisþega eldri en 70 ára skyldu ekki lengur skerða lífeyrisgreiðslur þeirra. Þetta var aðeins eitt skref á langri vegferð.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í desember sl. um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja voru boðaðar frekari aðgerðir sem þegar hafa verið lögfestar og sem ýmist hafa þegar komið til framkvæmda eða munu gera það nú um mitt ár. Þannig var skerðing tryggingabóta vegna tekna maka felld niður frá 1. apríl sl. og gamalt baráttumál margra þar með í höfn. Þá var frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67–70 ára hækkað í 100 þús. kr. á mánuði frá 1. júlí og sama er að segja um frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja. Jafnframt mun ríkissjóður tryggja að ellilífeyrisþegar með litlar eða engar tekjur úr lífeyrissjóðum fái allt að 25 þús. kr. á mánuði til viðbótar almennum bótum.

Ákvarðanir núverandi ríkisstjórnar hafa bætt kjör lífeyrisþega um 9 milljarða kr. Þessu til viðbótar er rétt að halda því til haga að í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar var gripið til umfangsmikilla ráðstafana síðast árið 2006 sem fólu í sér miklar kjarabætur fyrir þennan hóp landsmanna.

Góðir áheyrendur. Um þessar mundir á sér stað á Íslandi nauðsynleg aðlögun að breyttum aðstæðum í öryggis- og varnarmálum. Lok kalda stríðsins og brotthvarf bandaríska varnarliðsins ollu því að Íslendingar urðu að axla aukna ábyrgð á eigin öryggi og vörnum og taka frumkvæði að margþættara samstarfi við önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Aðildin að bandalaginu og tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkin eru enn hornsteinar öryggis- og varnarmálastefnunnar en á þeim trausta grunni hafa verið byggðar stoðir sem munu stuðla að frekara öryggi og stöðugleika á Norður-Atlantshafi. Sett hefur verið á fót varnarmálastofnun sem mun m.a. annast rekstur íslenska loftvarnakerfisins. Loftrýmiseftirlit Atlantshafsbandalagsins er hafið með sögulegri þátttöku franskrar flugsveitar og tekist hefur öryggismálasamstarf við Noreg, Danmörku og nú nýlega Bretland auk þess sem samkomulag við Kanada er í burðarliðnum. Um leið er starfshópur um áhættumat langt kominn með vinnu sína og íslensk stjórnvöld vekja með virkum hætti athygli umheimsins á öryggismálum norðurslóða í nútíð og framtíð.

Allt þetta gerðist á innan við 18 mánuðum og því er ljóst að ríkisstjórnin tekur mjög alvarlega þá grundvallarskyldu stjórnvalda í hverju fullvalda ríki að tryggja öryggi og varnir þjóðarinnar.

Á svipaðan hátt endurspeglar framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna metnað þjóðar sem hefur náð þeim mikilvæga áfanga að vilja vera og geta verið ábyrgur og virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna. Niðurstaðan verður kunn í október nk. og getur brugðið til beggja vona. Ef Ísland tekur sæti í ráðinu verður skyldustörfum þar gegnt af yfirvegun og látleysi lítils ríkis sem hefur lánast að brjótast úr örbirgð til bjargálna með því að treysta á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og mikinn mannauð. Ef atkvæði falla á annan veg geta Íslendingar samt verið stoltir yfir því að hafa látið reyna á jafnræði aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og hafa haldið fram þeirri grundvallarreglu að jafnt smærri sem stærri ríki eigi rétt á að taka sæti á þessum meginvettvangi alþjóðlegra öryggis- og friðarmála.

Góðir Íslendingar. Það er langur og erfiður vetur að baki og vorið okkar góða, grænt og hlýtt, er komið. „Ég er komin með vorið til þín vinur minn, vaknaðu og sjáðu,“ orti Snorri Hjartarson um vorkomuna. Það hafa vissulega ýmsir erfiðleikar steðjað að þjóðinni á liðnum vetri en þeir munu víkja til hliðar fyrir betri tíð áður en langt um líður. Um það er ég sannfærður. Íslenska þjóðin hefur áður staðið frammi fyrir ytri áföllum og jafnan staðið þau af sér. Það munum við einnig gera núna. Góðar stundir.