135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[20:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Mér þótti formaður Framsóknarflokksins vera borubrattur talsvert umfram efni. Hann talaði um að ríkisstjórnin væri hölt. Hefur formaður Framsóknarflokksins skoðað stöðu Framsóknarflokksins, fylgi hans og hvernig það hefur þróast undir forustu hans?

Formaður Framsóknarflokksins sagði sömuleiðis að Samfylkingin hefði svikið alþýðuna. Ég tel nú að það sé rétt á þessum tímamótum, þegar sögulegt samstarf þessara tveggja stærstu stjórnmálaflokka landsins er búið að vara í eitt ár, að við rifjum það aðeins upp í kringum hvað til þess samstarfs var efnt. Við sögðum á Þingvöllum: Málefni elstu og yngstu kynslóðanna verða sett í forgang. Við sögðum líka: Ríkisstjórnin ætlar að leggja áherslu á að auka jöfnuð með því að bæta kjör þeirra hópa sem höllustum fæti standa.

Ríkisstjórnin hefur staðið undir nafni. Hún hefur fylgt þessum áformum í framkvæmd þrátt fyrir áföll í efnahagslífi heimsins. Þrátt fyrir skerðingu þorskkvóta hér heima hefur hún samt sem áður ótrauð haldið áfram að beita sér fyrir mestu jöfnunaraðgerðum sem nokkur ríkisstjórn í sögu lýðveldisins hefur beitt sér fyrir. Formaður Framsóknarflokksins sagði hérna sérstaklega að ríkisstjórnin kynni ekki að reikna. Ja, ég leyfi mér að efast um að hv. þingmaður Guðni Ágústsson komist þá að sömu niðurstöðu og ég en jafnvel formaður Framsóknarflokksins haggar ekki staðreyndum. Staðreyndirnar og tölurnar tala sínu máli. Þegar upp er staðið munu þessar jöfnunaraðgerðir sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir hafa leitt til þess að 9 þús. milljónir á hverju einasta ári verða fluttar til barna, til aldraðra og til öryrkja. Þetta er árangur, þessu getur hver einasti jafnaðarmannaflokkur og hver einasta ríkisstjórn verið stolt af og við erum stolt af þessu. Þetta hefur okkur tekist þrátt fyrir þá erfiðleika sem hv. þingmaður talar um.

Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin eru vitaskuld tveir ólíkir flokkar en þessir tveir flokkar hafa gert með sér sáttmála um ríkisstjórn. Við í Samfylkingunni gengum til þessa samstarfs á okkar forsendum af fullum styrk og af fullum heilindum. Það kann vel að vera að formanni Framsóknarflokksins og Ögmundi Jónassyni þyki stundum sem við nuddum saman hornum eins og frískleg lömb að vori en ég segi fyrir mig og minn flokk: Þetta samstarf hefur gengið vonum framar og ég fullyrði að allir stjórnarliðar hafa verið einhuga um að standa vel að öllu því sem varðar samkomulag í upphafi stjórnarsamstarfsins. Í þeim efnahagserfiðleikum sem forustumenn stjórnarandstöðunnar gera lítið úr hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar sýnt styrk með því að glíma við vandann af varkárni og stefnufestu. Mótvægisaðgerðirnar andspænis þriðjungsminnkun þorskkvóta snerust ekki um töfralausnir eða tímabundnar sjónhverfingar. Þær miðuðust fyrst og fremst að því að efla grunngerðina, samgöngur, menntun, fjarskipti, dreifingu orku, nýsköpun og skapa þannig forsendur fyrir nýju atvinnulífi um allt land. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við yfirstandandi fjármálakreppu hafa sömuleiðis einkennst af yfirvegun og af hyggindum.

Verkefnið núna er að kveða saman niður verðbólgudrauginn og koma betra jafnvægi á efnahagsmál þjóðarinnar. Það kallar á samráð og það kallar á samstöðu og það þekkjum við af sögunni að Íslendingar hafa alltaf borið gæfu til þess að snúa bökum saman við slíkar aðstæður. Hvað sem líður hinni daglegu glímu stjórnarandstöðu og ríkisstjórnar vil ég samt segja það þrátt fyrir ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar að mér finnst að þingmenn í stjórnarandstöðu hafi sýnt ábyrgð. Þeir hafa veitt brautargengi nauðsynlegum vörnum sem ríkisstjórnin hefur viljað koma fram við aðsteðjandi vanda og það ber að þakka.

Góðir Íslendingar. Við þekkjum það af umliðnum árum að þær deilur sem hæst hafa risið í okkar samfélagi hafa verið um virkjun og um stóriðju. Þessi ríkisstjórn hefur einsett sér að reyna að ná sem víðtækastri sátt um þessi deiluefni. Hún hefur tekið sér í hendur og er að þróa ný stjórntæki til þess að tryggja það sem við öll viljum tryggja, að óspillt náttúra raskist ekki sama hvaða framkvæmdir sveitarfélög eða fyrirtæki verða ásátt um.

Ég rifja það þess vegna upp að það var eitt fyrsta verk okkar í nýrri ríkisstjórn að hrinda af stokkum gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða sem á að ljúka á næsta ári. Samhliða tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hafna öllum beiðnum um ný rannsóknar- og nýtingarleyfi á óröskuðum náttúrusvæðum. Hún ákvað líka að taka sérstaklega frá og vernda sex verðmæt náttúrusvæði. Hún samþykkti að fella vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum undir Vatnajökulsþjóðgarð. Hún lýsti því yfir að í hennar tíð yrði ekki hreyft við Langasjó í virkjunarskyni og hún sagði sömuleiðis að vernda ætti allt hið viðkvæma votlendi Þjórsárvera. Hún lagði fyrir Alþingi tillögu um landsskipulag sem er ákaflega þýðingarmikið stjórntæki varðandi verndun íslenskrar náttúru.

Góðir Íslendingar. Ég segi við ykkur: Þessi stjórntæki eiga að tryggja að okkar mati að verðmætri, óspilltri náttúru verður ekki spillt. Þetta er Fagra Ísland . Þó að við tökumst á hér í kvöld og þó að við tökumst oft á og fregnir af Alþingi Íslendinga séu einatt af orrustum og stórátökum þá segi ég það samt fyrir minn hatt að ein ánægjulegustu tíðindin úr sölum hins háa Alþingis í vetur eru að síðustu daga sýnist mér að það sé að nást breið samstaða um það grundvallaratriði að orkuauðlindir okkar megi ekki framselja varanlega. Það er að takast söguleg sátt um það meginatriði í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um orkumál að vatns- og jarðhitaréttindi verði framvegis sem hingað til í eigu ríkis og sveitarfélaga. Mér sýnist að það sé líka að takast býsna góð sátt um að veitu- og dreifikerfi sem sjá almennum borgurum fyrir hita og ljósi verði alltaf í meirihlutaeign opinberra aðila. Ég tel að hér sé á ferðinni eitt mikilvægasta mál sem komið hefur til kasta Alþingis á síðustu árum og ég hef heyrt marga þingmenn taka undir það á síðustu dögum. Hér stefnir því að mínu mati í sögulega lagasetningu sem mun tryggja brýna hagsmuni almennings, varðveita eignarhald þjóðarinnar á orkulindum hennar og um leið skapa orkufyrirtækjunum sóknarfæri heima og erlendis.

Við erum sem þjóð blessuð af því að við eigum gnótt grænnar orku. Það er þessi orkugnótt sem ég tel að geri Ísland að kjörinni tilraunastöð til þess að þróa og framleiða endurnýjanlegt eldsneyti á bíla- og skipaflotann sem við þurfum í dag að flytja inn jarðefnaeldsneyti til að knýja. Ríkisstjórnin mun á næstu árum gera það eitt af meginverkefnum iðnaðarráðuneytisins að beita sér fyrir frekari þróun orkugjafa sem geta komið í staðinn fyrir dýrt bensín og dýra olíu. Við höfum tæknilegt forskot í vetni en það vita kannski fáir að við höfum líka tæknilegt forskot á heimsvísu varðandi nýtingu metangass og sömuleiðis varðandi framleiðslu metanóls úr koltvísýringi. Það er engin þjóð sem á svipaða möguleika og við á að rafvæða samgöngur sínar.

Þetta er það sem þessi ríkisstjórn ætlar að leggja áherslu á og saman á þingheimur auðvitað að standa að þessu og ég ber lof á frumkvæði forvera míns í embætti sem hratt mörgu af þessu af stað. Þetta á að vera okkar framlag til heimsins í baráttunni gegn hlýnun andrúmsloftsins. Hlutverk okkar sem stjórnvalds á að vera að skapa umhverfi sem örvar þessa þróun og byggja grunngerð sem gerir Íslendingum kleift að vera í fararbroddi þegar heimurinn skiptir úr olíu og bensíni yfir í nýja orkugjafa.

Íslendingar eiga nú að gera klárt fyrir orkuskipti á bíla- og bátaflotanum með tækniþróun af þessum toga og með því að byggja fjölorkustöðvar á helstu þéttbýlisstöðum í kringum landið þar sem hægt verður að fá rafmagn, vetni, metanól og etanól. Þannig gerum við klárt til þess að hægt sé að taka við næstu kynslóð nýorkubíla þegar fjöldaframleiðsla á þeim hefst og það er skammt í það, góðir Íslendingar.

Ég hef stundum í ræðum mínum hér á Alþingi og annars staðar lagt mikla áherslu á að nýja atvinnulífið er framtíðin og aflvélar þess munu ganga fyrir þekkingu, vísindum og nýrri tækni. Ríkisstjórnin hefur lagt mjög mikla áherslu á að bæta starfsumhverfi sprotafyrirtækjanna. Þau eru mjólkurkýr morgundagsins og þar gerast hlutirnir hratt þessa dagana. Ríkisstjórnin siglir þannig hraðbyri að því að tvöfalda fé rannsóknarsjóðs og tækniþróunarsjóðs á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin er jafnframt að undirbúa hraðbraut í frumkvöðlafræðum á háskólastigi. Nýsköpunarmiðstöðin hefur á sínum fyrstu níu starfsmánuðum opnað fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar fjórar starfsstöðvar á landsbyggðinni og fleiri eru í fæðingu. Í dag var gengið frá samkomulagi við Nýsköpunarsjóð um sérstaka liðveislu varðandi markaðssetningu nýrrar vöru sem er vísir að langþráðri brú yfir hina svokölluðu nýsköpunargjá sem hefur reynst svo mörgum sprotum torsótt að klofa. Síðast en ekki síst verður á morgun tilkynnt um langþráða stofnun 4,6 milljarða samlagssjóðs stjórnvalda, Nýsköpunarsjóðs, banka og lífeyrissjóða til þess að ýta undir fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þetta er nýja atvinnulífið og þetta er framtíðin. Við eigum ekki að láta argaþras dagsins byrgja okkur sýn til þess að sjá þessa framtíð, til þess að sjá framfarirnar, til þess að sjá lausnirnar.

Góðir Íslendingar. Megi sumarið verða okkur öllum gjöfult og gott.