135. löggjafarþing — 110. fundur,  27. maí 2008.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:30]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fagnar nú um þessar mundir eins árs afmæli sínu. Sú ríkisstjórn er vissulega stór en fjölmenn ríkisstjórn þarf þó ekki að þýða styrkleika landi og þjóð til hagsældar eins og veik staða í efnahagsmálum sýnir.

Nú hefur annar stjórnarflokkanna tekið upp þá stefnu að segja eitt og framkvæma annað. Það má vel vera að það sé líklegt til vinsælda en þjóðin mun líða fyrir það. Sú umræðupólitík sem tekin hefur verið upp þýðir ekkert annað en að tala upp í eyrað á fólki og reka áróður fyrir því að verið sé að vinna að hlutum sem ekki er verið að vinna að.

Við í Framsókn tölum skýrt. Okkar stefna liggur fyrir og við þurfum að standa skil á sögu okkar, hefð og rótum. Sá grunnur sem við erum sprottin af er ekki héðan og þaðan, úr þessum flokknum eða hinum. Þótt stutt sé síðan flokkurinn fór í stjórnarandstöðu hefur málflutningur okkar verið málefnalegur og sanngjarn. Þjóðin gengur fyrir.

Sá efnahagsvandi sem nú blasir við bitnar hvað mest á ungu fólki, barnafólki sem þarf að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Það mætir nú þungum byrðum, háu húsnæðis- matvæla- og eldsneytisverði og sífellt hækkandi vöxtum á verðtryggðum lánum. Skuldasöfnun blasir við.

Meiri hlutinn hefur hér í umræðunni fríað sig allri ábyrgð og segir að vandinn komi að utan. Sá flótti gengur ekki upp því að allar aðrar vestrænar þjóðir gripu strax til efnahagsaðgerða meðan hér var setið auðum höndum. Hvar er það land í heiminum þar sem stýrivextir eru jafnháir og verðbólgan mælist jafnhá?

Hér í kvöld hefur verið fullyrt að það hafi verið efnahagslífinu hollt að bíða með aðgerðir. Hefði þá ekki að sama skapi verið hollt að bíða með misvísandi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og einstakra ráðherra? Hefði til að mynda ekki verið betra að tala krónuna upp en ekki niður? Og hefði ekki líka verið betra að bíða með digurbarkalegar yfirlýsingar um niðurfellingu stimpilgjalda? Yfirlýsingu sem ein og sér botnfrysti fasteignamarkaðinn.

Þjóðin á ekkert annað skilið en að vita hvert ríkisstjórnin stefnir og að hún geti treyst því að báðir ríkisstjórnarflokkarnir vinni að þeim markmiðum. Það er afar mikilvægt að það liggi ljóst fyrir að hvaða málum á að vinna og hvar á að gera umbætur. Það skiptir einnig miklu máli að Alþingi gefi frá sér þau skilaboð að stór mál séu unnin í sátt og samlyndi, þau hafi fengið góðan tíma og að fagmennska hafi einkennt öll vinnubrögð.

Mikil og góð samstaða er t.a.m. um leikskóla- og grunnskólafrumvörpin sem og hið svokallaða menntunarfrumvarp þar sem réttindi kennarastéttarinnar eru bætt að ýmsu leyti.

Að sama skapi harma ég mjög að frumvarp til framhaldsskóla skuli hafa verið keyrt í gegnum Alþingi í eins mikilli ósátt og hægt var að hugsa sér. Það er alveg sama hvar í ferlinu málið hefur verið statt. Um það hafa verið háværar gagnrýnisraddir og enn eru að berast tilmæli þar sem fast er kveðið á um að fresta málinu og bíða með afgreiðslu þess.

En um leið og sjálfstæðismenn boðuðu umbyltingu og algjöran viðsnúning á stefnu sinni í málefnum framhaldsskólanna, nú í vetur, kom út skýrsla frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, hin svokallaða Pisa-könnun, sem getumældi árangur sjálfstæðismanna í menntamálum. Niðurstaðan var falleinkunn.

Um leið og sú niðurstaða lá fyrir birti OECD einnig niðurstöður sínar um heilbrigðiskerfið sem hefur verið í höndum okkar framsóknarmanna sl. 12 ár. Niðurstaðan var skýr. Heilbrigðiskerfið okkar er ekki bara gott — það er lofsvert og stendur fremst í samanburði við aðrar þjóðir. Heilbrigðiskerfið fær toppeinkunn.

Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um íbúðalánasjóð fólksins. Nú notar Sjálfstæðisflokkurinn og fjármálaráðherrann hvert tækifæri til að lýsa skoðun sinni á einka- og bankavæðingu þess sem kallaður er almenni hluti sjóðsins. Því miður er í engu treystandi yfirlýsingum Samfylkingarinnar um að sjóðurinn verði ekki einkavæddur. Hún hefur einfaldlega gefið eftir of mörg af sínum stóru stefnumálum þegar á hólminn er komið. Um sjóðinn þarf að standa áfram vörð og á honum má alls ekki gera ónauðsynlegar breytingar.

Við framsóknarmenn höfum þá skýru stefnu að heilbrigðisþjónustan og aðgangur að menntun eigi að vera fyrir alla óháð efnahag, stöðu og búsetu. Við höfnum einkavæðingu og teljum að stór hluti samneyslunnar eigi að fara í þessa þætti. Hvernig sem ástatt er hjá fólki þá á það að eiga greiðan aðgang að heilsugæslu og að börn fái notið menntunar.

Við framsóknarmenn munum berjast fyrir því að hagsmunir fjölskyldunnar verði alltaf í fyrirrúmi. Að ákvarðanir sem teknar verða af stjórnvöldum á hverjum tíma miði að því að styrkja undirstöður samfélags okkar með því að hlúa að þeim sem eiga um sárt að binda, styrkja heimilin og búa vel í haginn fyrir börnin okkar.

Um þessa mikilsverðu hagsmuni munum við framsóknarmenn standa vörð og aldrei gefa eftir. — Ég þakka þeim sem hlýddu.