135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:10]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að hér er mjög mikilvæg atkvæðagreiðsla á ferðinni vegna þess að við erum að greiða atkvæði um grundvallarmál. Eins og fram kom í máli hennar ríkir gríðarlega góð samstaða og má segja söguleg sátt um það að slá skjaldborg um orkuauðlindir þjóðarinnar með því að tryggja að þær verði áfram í eigu hins opinbera, hvort heldur ríkis eða sveitarfélaga eða fyrirtækja á þeirra vegum. Það er eitt af grundvallaratriðum þessa máls og því fögnum við þeirri sátt sem um það hefur skapast í þinginu.

Í þessu frumvarpi er líka verið að stíga önnur mjög mikilvæg skref til að skerpa á regluverki okkar í orku- og auðlindamálum til framtíðar og tryggja mjög mikilvæg réttindi og meirihlutaeign hins opinbera sömuleiðis í fyrirtækjum sem byggja á sérleyfum og einokun.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir störfin í nefndinni vegna þess að þau gengu mjög vel. Farið var mjög ítarlega yfir málið og tekið tillit til sjónarmiða fjölmargra umsagnaraðila og gesta sem komu á fundinn og vil ég þakka fyrir það.