135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:11]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur fram er hér um að ræða stórt og mikið mál sem fyrst og fremst snýr að meðferð orkuauðlinda í opinberri eigu og rekstrartilhögun orkufyrirtækja til framtíðar og er margt ágætt í þessu frumvarpi. Ég hef lent í því slysi, því miður, af því að ég var mjög jákvæður í nefndinni og tók málinu vel, að stjórnarliðar hafa sett mig með sér á breytingartillögur. Ég fylgi þeim ekki í einu og öllu. Ég vil því taka fram að ég áskil mér rétt til að fylgja sumu og vera á móti öðru og sérstaklega 4. gr. sem breyttist í meðförum nefndarinnar þannig að þar sem var um tvo þriðju hluta í eigu opinberra aðila að ræða í raforkufyrirtækjum á orkusviði, nægja nú 51%. Ég er andvígur þessari breytingu. Svo gagnrýndi ég auðvitað hæstv. iðnaðarráðherra hart fyrir að hafa ekki haft samkomulag eða samræður við sveitarfélögin við samningu frumvarpsins sem var mjög umdeilt í nefndarstarfinu.