135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Kjarninn í þessu máli er að tryggja að orkuréttindin verði í eigu opinberra aðila og þar með í höndum þjóðarinnar. Þingflokkur Frjálslynda flokksins styður það eindregið að sú lagasetning nái fram að ganga sem felur það í sér. Frumvarpið er þó ekki að öllu leyti gallalaust og mikilvægum þáttum í því hefur verið frestað til sérstakrar nefndar og síðari lagasetningar sem er bagalegt en á sér rætur í því að stjórnarflokkarnir komu sér ekki saman um þá.

Fulltrúi okkar í iðnaðarnefnd flytur breytingartillögur þar sem hann leggur til að afnotatíminn verði styttur úr 65 árum í 35 ár og að fjármálaráðherra verði heimilað að beita sér fyrir því að hlutur Geysis Green í Hitaveitu Suðurnesja verði keyptur og fyrirtækið þannig að öllu leyti í eigu opinberra aðila. Ég hvet hv. þingheim til þess að fallast á þessar góðu tillögur.