135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:27]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er verið að gera breytingu á 8. gr. raforkulaga þar sem verið er að kveða á um rekstrarform Landsnets. Í dag er ekkert kveðið á um það eða nein trygging fyrir því að fyrirtæki skuli vera í meirihlutaeigu hins opinbera heldur er eingöngu kveðið á um að það skuli vera hlutafélag. Síðan eru hins vegar aðrar greinar sem tryggja að það sé í 100% eigu hins opinbera, eins og t.d. bráðabirgðaákvæði XII. Með þessari atkvæðagreiðslu er ekki verið að fella það úr gildi, það stendur því áfram. Hins vegar er verið að bæta inn í almenna grein því prinsippi sem fylgt hefur verið í gegnum allt þetta frumvarp að fyrirtæki með sérleyfisstarfsemi og sem er í einokun og sinnir þessu mikilvæga samfélagshlutverki, skuli vera í meirihlutaeigu hins opinbera. Ekki er verið að breyta eignarhaldinu í Landsneti, það þarf að gera með annars konar lagabreytingum og þarf þá að koma sérstaklega fyrir Alþingi.