135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[10:47]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Með þessu ákvæði er verið að leggja til að fjármálaráðherra skuli að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélaga beita sér fyrir því að ríki eða sveitarfélög eignist hlut Geysis Green í Hitaveitu Suðurnesja. Nú er rétt að skýra frá því að í meðförum nefndarinnar á málinu kom fram yfirlýsing frá stjórnarmönnum, bæði formanni og varaformanni stjórnar Hitaveitu Suðurnesja, um að þeir muni laga fyrirtækið að þessum lögum þannig að þau muni ná til Hitaveitu Suðurnesja. Í þeirri yfirlýsingu kemur fram að unnið sé að samkomulagi um að a.m.k. Reykjanesbær eignist það land og jarðhitaréttindi sem nú eru í eigu Hitaveitu Suðurnesja.

Jafnframt kemur fram í þessari yfirlýsingu að þannig fari land- og jarðhitaréttindi Hitaveitu Suðurnesja í fulla eigu opinberra aðila og samið verði við Hitaveitu Suðurnesja um afnot. Ég tel þetta bráðabirgðaákvæði sem hv. þingmaður leggur til óþarft og segi því nei en fagna um leið þessari yfirlýsingu frá Hitaveitu Suðurnesja.