135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

samkeppnislög.

384. mál
[11:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni í því að að sjálfsögðu þarf að vera hér rammi, m.a. samkeppnisrammi. Engu að síður hef ég líka viljað sjá að gerðar væru mun harðari og strangari siðferðiskröfur til fyrirtækja og stofnana. Mér hefur t.d. komið á óvart — og ég veit ekki til þess að viðskiptabankar hér hafi sett sér siðareglur. Ég veit ekki til þess, hvorki í viðskiptum né í umgengni. Ég veit að sumir bankar erlendis hafa sett sér siðareglur varðandi umhverfismál, að lána ekki fjármagn til verkefna sem eru umhverfisspillandi. Sumir bankar hafa sett sér þær reglur að lána ekki til starfsemi sem lýtur að vopnaframleiðslu eða öðru slíku. En mér er ekki kunnugt um að hér sé neitt slíkt og ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til þess.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann — þó að það sé ekki svo sem eðlilegt að gagnspyrja þann sem kemur í andsvar en hann hefur þá tækifæri til þess að gera það líka. Ef hann horfir á hvernig þessi samkeppnislög eru uppbyggð og skipta landinu í þjónustuflokka þá gilda þau fyrst og fremst fyrir þau svæði þar sem hægt er að vonast til að sé virk samkeppni. Stórir hlutar landsins mega bara þakka fyrir ef þjónustan er þar yfir höfuð. Ég minntist á olíuþjónustuna og bankana. Við erum samt ein þjóð (Forseti hringir.) þannig að tekjur bankanna koma ekki bara héðan af Reykjavíkursvæðinu, þær koma af landinu öllu (Forseti hringir.) en samt loka bankarnir útibúum sínum úti á landi.