135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[12:29]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp lýtur að innheimtu, frumvarp til innheimtulaga og hv. þm. Ágúst Ólafsson, formaður viðskiptanefndar, hefur gert grein fyrir því og fyrir nefndarálitinu. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns rita ég undir þetta nefndarálit án fyrirvara, þ.e. þau atriði sem lúta beint að umræddu frumvarpi og ég get sætt mig við þau þótt þar sé ýmislegt sem ég hefði kannski viljað hafa skýrara.

Eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á snýr frumvarpið fyrst og fremst að neytandanum, þ.e. lögin gilda um innheimtu gjaldfallinna peningakrafna fyrir aðra eða vegna eigin starfsemi, þó ekki eigin innheimtu opinberra aðila á sköttum og gjöldum og innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga.

Nú er það svo með samskipti neytandans og þess aðila sem veitir þjónustuna, hvort sem það er í formi vöru eða peninga að það skiptir máli að réttindi og gagnkvæmar skyldur séu mjög skýrar. Við þekkjum öll þess dæmi að kröfur sem á okkur hvíla varðandi greiðslu skuldar eða að fullnægja ýmsum kröfum gagnvart kröfuhafa geti jafnvel gengið kaupum og sölum. Þannig get ég þó að ég hafi gert viðskipti við einn aðila átt von á því, sérstaklega ef ég hef ekki einhverra hluta vegna getað staðið í skilum við þær skuldbindingar sem þar voru settar tímanlega, að sú krafa fari á flot og í mörgum tilfellum gerir hún þar. Allt í einu berst innheimtubréf frá einhverjum aðila sem ég þekki ekki nokkurn skapaðan hlut og hef aldrei gert samning við um að taka að sér viðskipti og þá rekur mann oft í rogastans. Til viðbótar eru slík bréf oft með orðalagi og afarkostum sem stillir manni upp við vegg og þó að ég sé ekki að mæla því bót að ekki sé staðið í skilum 100% á þeim degi sem gert var ráð fyrir að staðið yrði í skilum með stórar upphæðir, það getur verið afborgun af stóru láni, þá er ekki þar með sagt að ég hafi samþykkt það að þau samskipti ættu að fara á flot og vera seld til þriðja aðila.

Maður lítur svo á að þó að ekki sé staðið í skilum með t.d. eina afborgun af láni, kannski upp á 40 afborganir, akkúrat á réttum degi þá sé ekki þar með sagt að búið sé að rjúfa viðskiptasambandið við viðkomandi lánardrottin. Ég held að mörg okkar hafi einmitt upplifað að þeim finnst afar ósanngjarn sá einhliða réttur þeirra sem menn kalla kröfuhafa til að framselja slíkar innheimtur og þar með oft og tíðum meira eða minna gefið opið skotleyfi á neytandann. Það er því í sjálfu sér fyllilega tímabært að setja þetta í einhverja umgjörð, í einhvern farveg til að tryggja betur hag neytandans.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar hefur neytandinn yfirleitt ekkert val, hann er ekki spurður. Kröfuhafinn ákveður þennan feril oft og tíðum mjög einhliða og það getur á engan hátt talist sanngjarnt. Ég styð því í sjálfu sér það sem kemur fram í frumvarpinu, að það sé verið að setja þetta í fastari farveg. Í umsögnum sem bárust eru nokkuð skiptar skoðanir meira að segja um hvort nógu langt sé gengið til að tryggja rétt neytandans. Þar má t.d. nefna að Lögmannafélag Íslands — innheimta einstakra félagsmanna þeirra heyrir reyndar ekki beint undir þessi lög en aðkoma þeirra að þessu máli er margþætt — bendir á að það þurfi að setja fleiri varnagla, fleiri bremsur til að veita skuldaranum aðkomu að málinu þó að það sé komið í einhvern innheimtuferil og ég tek alveg undir það. Þetta skiptist upp í frum- og milliinnheimtu og síðan eru komnar fjármagnskröfur og löginnheimtur og oft og tíðum fer skuld í þennan feril vegna vanrækslu og gleymsku, sem hingað til hefur oft verið sýnt ansi mikið umburðarlyndi. En þar sem hægt er að gera sér slíkt að féþúfu þá ber manni að vera á verði. Síðan þegar málið er komið í innheimtuferil, ég hef heyrt margar sögur af því og til mín koma einstaklingar sem segja að þá sé bara ekki við neinn að tala. Það er eins og eitthvert hjól fari í gang, einhver stöðumælir sem tikki inn á dagsektir og síðan fyrir fram innheimtukostnaður, tilkynningakostnaður o.s.frv. Fyrir venjulegt fólk getur þetta fljótt orðið frumskógur sem erfitt er að feta sig í gegnum.

Innheimtulög eða innheimtuaðgerðir mega alls ekki vera reknar á þeim grunni að ætlunin sé að reyna að hafa sem mest af fólki, þótt skuld hafi lent í innheimtu þá má það ekki vera markmið að ná sem mestum peningum af fólki eða láta það lenda í sem mestum vandræðum. Ég er ekki að segja að það sé þannig en eins og þetta hefur verið framkvæmt þá býður það upp á það og því miður þekkjum við mörg dæmi þess hvernig einstaklingar verða alger fórnarlömb í óvægnu innheimtuferli þar sem verulegt fjármagn er tekið til að innheimta. Í þessum lögum er því verið að taka á þessum þáttum þó svo að ég taki undir varnaðarorð sem bæði Neytendasamtökin og aðrir komu með varðandi þetta mál, að það þyrfti að tryggja stöðu neytendanna enn betur því þarna er í raun oft verið að véla með fjármálalegt sjálfstæði einstaklinga til lengri, lengri tíma. Það er ekkert grín fyrir einstakling að lenda í því að vera kominn í þannig skuldaferilsmál að ekki sjái fram úr því og boltinn hafi rúllað upp með þeim hætti.

Ég tek undir þau varnaðarorð sem Neytendasamtökin benda á að æskilegt væri að nánar væri kveðið á um það í lögunum hvort og þá með hvaða hætti innheimtuaðilar megi snúa sér persónulega að skuldara, innheimtuaðili sem hefur kannski aldrei gert samning við viðkomandi skuldara heldur hefur fengið kröfuna frá öðrum. (Gripið fram í.) Skuldar forseti nokkuð? Af því að forseti veltir fyrir sér málþófi þá held ég að forseti ætti einmitt að huga að því hversu margar fjölskyldur munu standa frammi fyrir því ef herðir á kjörum fólks í efnahagslífinu að eiga í erfiðleikum með að standa skil á skuldbindingum sínum, t.d. húsnæðisskuldbindingum, einmitt vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, eða aðgerðarleysisstefnu þeirra í efnahagsmálum. Það mun mikill fjöldi fólks, vaxandi fjöldi, því miður standa frammi fyrir þessu og það er þess vegna dæmigert að við skulum einmitt nú þurfa að setja lög til að vernda stöðu þessa fólks — og ég styð það að slík lög verði sett — bæði nú og ekki síst á komandi tímum vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, vegna aðgerða ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem hefur sett þetta ferli af stað að heimili eru skuldsettari nú en nokkru sinni fyrr. Það má vel vera að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins finnist það vera réttmætt og allt í lagi en það finnst mér ekki. Þess vegna hefði ég jafnvel viljað að enn lengra hefði verið gengið til að tryggja rétt þessa fólks.

Eitt er það líka sem ég ræddi og gerði athugasemdir við en það var um fresti sem gefnir eru til að greiða kröfur. Ef bréf með kröfu er sent út og gefinn átta daga frestur til að inna kröfuna af hendi þá er ekki víst að póstþjónustan hér á landi sjái til þess að bréfið berist nógu fljótt til að hægt sé að greiða kröfuna á tilsettum tíma. Það er engin trygging fyrir því að bréf sem sett er í póst á föstudegi og á að fara vestur á firði eða á Norðausturland eða hvert sem er, að því sé komið til skila þannig að viðkomandi geti brugðist við á virkum degi og nú er póstþjónustunni þannig háttað að það verður að senda allan póst í gegnum Reykjavík. Ef bréf er sett í póst norður í landi þá má búast við að pósturinn fari fyrst til Reykjavíkur þar sem hann er flokkaður og síðan sendur aftur til baka þó að staðurinn sé í stuttri fjarlægð þannig að svona lagasetning og tímafrestur miðast oft við að allir séu staddir á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta hef ég líka bent á, herra forseti, að í lagasetningunni verða menn að gera sér grein fyrir því hvernig Ísland er, stórt dreifbýlt land og hvort sem er verið að innheimta viðvaranir eða kröfur sem eru sendar út þá er það sjálfsögð og eðlileg krafa að fresturinn sé svo langur að viðkomandi hafi tök á að bregðast við og það gildi um allt land, hvar sem búið er. Mér finnst að um þessa þætti gagnvart neytandanum, gagnvart fólki hefði átt að kveða enn betur að í frumvarpinu þannig að fólki væri ekki mismunað eftir búsetu hvað kröfugerð varðar um innheimtu skulda. Ég held að við þekkjum öll þessi tilvik þar sem kröfur eru að berast til viðtakanda löngu eftir að frestur er liðinn og það getur ekki verið neinum til hagsbóta að vera með þannig kerfi en því miður er það þannig.

Að síðustu vil ég aðeins nefna þetta með eftirlitið. Það hefur verið gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með þessum lögum. Ég verð að segja eins og er að þessi eftirlitsiðnaður allur er farinn að tútna út eins og púki á fjósbita. Það er sama hvort það er samkeppniseftirlit, fjármálaeftirlit eða hvað það nú er, það er stöðugt verið að búa til ný og ný eftirlitsverkefni og einhver verður að borga þau. Ég verð að segja líka nákvæmlega eins og ég sagði með Samkeppniseftirlitið að mér finnst líka vera ástæða til að fara að skoða heildarlöggjöf um Fjármálaeftirlitið. Mér finnst ég oftar upplifa það þannig að það sé fyrst og fremst verið að vernda rétt hinna stóru en minna hugsað um að standa vörð um hag almennings og ég kem að því seinna í dag þegar rætt verður um sparisjóðina þar sem ég er með tillögur um að standa vörð um sparisjóðina og mér finnst Fjármálaeftirlitið, gagnvart sparisjóðunum og í fleiri tilvikum oft vera í því hlutverki að standa með hinum stóru gegn hagsmunum almennings og það muni þurfa að fara að endurskoða almennt lögin um Fjármálaeftirlitið og tengja þau betur lífinu í landinu. Við getum ekki sett á laggir hverja eftirlitsstofnunina á fætur annarri, látið hana tútna út og fá fjármagn og aukin verkefni sem aðeins miðast við aðstæður á höfuðborgarsvæðinu þannig að það er fyllilega ástæða til að fara að skoða það hér.

Öll þessi eftirlitsstörf, einhverjir voru að tala um „báknið burt“, það er stöðugt verið að auka eftirlitið og ef menn mæla það í störfum þá verða þau öll hér. Það er gert ráð fyrir því að þetta frumvarp kosti eitthvert starf, eitt og hálft starf að mig minnir, og það verður náttúrlega sett í Reykjavík í Fjármálaeftirlitinu. Svona erum við með uppbyggingu eftirlitsins að kalla yfir okkur aukna starfsemi hér en erum svo á hinum endanum að tala um að við ætlum að auka opinber störf úti á landi.

Herra forseti. Ég styð þetta frumvarp en tel að það hefði mátt ganga lengra í að tryggja jafnrétti og jafnræði í rétti og verndun stöðu skuldara.