135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

innheimtulög.

324. mál
[12:59]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi mjög skýrt fram að ég styð frumvarpið. Ég held að það hafi komið mjög skýrt fram í máli mínu áðan eins og hv. þingmaður benti á eftir að hann var búinn að lýsa því að hann skildi ekki af hverju hér væri fyrirvari.

Í rauninni er verið að í gefa í skyn að það séu einhverjir óeðlilegir innheimtuhættir. Það má vel vera að svo sé í einhverjum tilfellum, en það má ekki halda því fram og slá sig til riddara með því að verið sé að gjörbylta innheimtuaðferðum hér á landi. Verið er að festa þetta, gera skýrara og í fastara form og því fagna ég.

Ég er algjörlega ósammála því að hér eigi að vera að tala um neytendur. Við erum öll neytendur og auðvitað er þetta alltaf þannig að einhver kaupir eitthvað. En um leið og hann fer að skulda er hann orðinn skuldari og skuldari er ekki alltaf í öllum tilvikum litli aðilinn. Kröfuhafinn getur verið litli aðilinn. Það er sú skoðun sem ég vil koma mjög, mjög sterkt á framfæri.

Ég get alveg viðurkennt að frumvarpið gæti verið eitthvað sem við framsóknarmenn mundum leggja fram. Ég styð því þetta, en ég var fyrst og fremst ósáttur við að Samfylkingin væri að slá sig til riddara vegna þess að hér væri um sérstaka neytendabót að ræða.