135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[13:37]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. formann nefndarinnar beint um ákveðið atriði. Það stendur í þessum breytingum sem nefndin leggur til varðandi fjármálafyrirtæki að sparisjóðir geti tekið yfir aðrar rekstrareiningar. Mér var bent á að þetta orð, „samruni“, passi í rauninni ekki því að sparisjóður megi aldrei renna saman við annað fyrirtæki. Hann má kaupa það á einhverjum kjörum en hann má ekki renna saman við það.

Ég hafði samband við gjörkunnugan mann í sparisjóðamálunum núna áðan til að bera þetta orðalag undir hann og hann benti á að samruni þýðir allt annað en að kaupa eða yfirtaka fyrirtæki. Ef sparisjóður rennur saman við annað fyrirtæki þá hefur það allt aðra merkingu.

Ég vildi bara vekja athygli hv. formanns nefndarinnar á þessu orðalagi áður en ég fer í ræðu mína hér á eftir. Sparisjóður getur aldrei runnið saman við fyrirtæki. Það skilur einmitt á milli sparisjóðanna og margra annarra slíkra fjármálafyrirtækja að hann getur keypt þau en ekki runnið saman við fyrirtæki með óskyldu rekstrarformi.