135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[13:42]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Minn skilningur á þessu er sá að við erum ekki að opna neina leið fyrir sparisjóðina til að leggja sig niður með nokkrum hætti. (Gripið fram í.) Við segjum að sparisjóðir geti keypt þarna einstaka rekstrarhluta án þess að vera breytt í hlutafélag. Þannig er skilningur minn á málinu og kom fram hjá nefndinni. Varðandi það að ósk um breytingu hafi komið frá stóraðilum á markaði er ekki rétt, hún kom fyrst og fremst frá Fjármálaeftirlitinu.

Hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á því má eflaust ræða fram á nótt en hins vegar er þetta markmið breytingartillögunnar, að gera lögin skýrari en sömuleiðis að farið sé ívilnandi leið fyrir sparisjóðina. Ég lít ekki svo á að við þurfum að hafa áhyggjur af því að sparisjóðirnir geti með þessum hætti lent í þeirri stöðu að leggja sjálfa sig niður. Þetta á að vera ívilnandi á þann veg að þeir geti keypt bankaútibú sem hugsanlega yrðu lögð niður að öðrum kosti. Að því leyti höfum við væntanlega sama skilning á þessum lögum og nefndin.