135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

breyting á lögum er varða verðbréfaviðskipti.

538. mál
[14:08]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður sé aðeins að misskilja þetta. Það er ekki hægt að taka út orðið samruni. Orðið samruni er ekki notað í tengslum við hugsanleg kaup sparisjóðs á t.d. útibúi. Orðið samruni er einungis notað í því samhengi ef sparisjóðurinn ætlar að sameinast öðru fyrirtæki.

Við erum ekki að ganga það langt að banna sparisjóðum að renna saman við önnur fyrirtæki, þeir þurfa bara að hlutafélagavæða sig fyrst. En við tökum út orðin „eða einstaka rekstrarhluta þess“. Ef við lítum á núgildandi 106. gr. þá hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag.“

Þetta er núgildandi lög. Við tökum það út sem lýtur að einstaka rekstrarhlutum þess. Þá stendur eftir: Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki er því aðeins heimill að sparisjóði verði áður breytt í hlutafélag.

Ekki er verið að nota hugtakið samruni í samhengi við hugsanleg kaup sparisjóðs á t.d. bankaútibúi. Það eru kaup, ég tek alveg undir það. Við erum ekki að ganga alla leið að banna samruna sparisjóða við annað fyrirtæki. Það heldur áfram og þar kannski greinir okkur á, en það er miklu stærra mál. Samruni sparisjóða við annað fyrirtæki mun eftir sem áður verða heimill að því gefnu að sparisjóði hafi áður verið breytt í hlutafélag. Það er það sem eftir stendur. En að það sé skylda sparisjóðs að hlutafélagavæða sig áður en hann kaupir bankaútibú er of langt gengið, og þar held ég að við séum alveg sammála.

Ég minni líka á að allt þetta sparisjóðaumhverfi er til endurskoðunar hjá viðskiptaráðuneytinu. Það er ágætt að fara að kalla eftir því héðan úr þessum ræðustól að þeirri endurskoðun verði flýtt. En ég held að sú breyting sem hér er til umræðu sé að öllu leyti ívilnandi fyrir sparisjóðina og sé í anda við það sem hv. þingmaður er að tala um. Hugtakið samruni, ég ítreka það, á ekki við þegar sparisjóður kaupir (Forseti hringir.) einstaka rekstrarhluta eins og útibú. Þess vegna er ekki rökrétt að taka út orðið samruni eins og ég skildi hv. þingmann.