135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

539. mál
[15:08]
Hlusta

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður beindi einni spurningu til mín varðandi 18. gr. Ég held að við verðum að lesa hana í samhengi við þá grein sem verið er að breyta, þ.e. 24. gr. laganna þar sem kemur fram að þetta á við útibú dótturfélaga ríkja utan EES í fyrsta lagi en í 1. mgr. 24. gr., sem við erum ekki að breyta, stendur: Aðilar sem tilgreindir eru í a–c-lið 1. mgr. 2. gr., og þá þarf að hoppa yfir í 2. gr. en þar eru nefnd t.d. fjármálafyrirtæki, líftryggingafélög og lífeyrissjóðir o.s.frv., sem sagt íslensku fjármálafyrirtækin, skulu tryggja að útibú þeirra og dótturfélög í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins kanni áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn sína með sambærilegum hætti og mælt er fyrir um í lögum þessum eða eins sambærilegum hætti og lög viðkomandi ríkis heimila.

Síðan erum við að breyta 2. mgr. sem lýtur að hinum íslensku móðurfélögum, ef svo mætti segja, því að við vitum að þegar íslenskt fjármálafyrirtæki stofnar útibú á erlendri grund þá hefur íslenska Fjármálaeftirlitið eftirlit með útibúinu. Hér er því verið að tryggja að íslensku lögin séu ákveðið lágmark, sé gólfið, þau megi ekki vera lakari. En séu réttarreglurnar strangari í því ríki þar sem útibúið er þá þarf að beita þeim.

Hér mætti lesa 24. gr. áfram en ég hef ekki tíma í það. En ef við lesum þetta í samhengi þá held ég að þetta ætti að skiljast, þ.e. séu reglurnar einfaldlega strangari annars staðar þá ber að beita þeim þegar dótturfélag eða útibú íslensks móðurfélags er staðsett þar.

Varðandi skilgreininguna á hryðjuverkum þá veit ég að það mál verður til umræðu seinna í dag í öðru máli og eins breytingar á almennum hegningarlögum. Ég held að sú umræða muni verða fyllri þar.