135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[15:40]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi þetta sem eitt dæmi um það hvernig Alþingi er í raun stillt upp við vegg. Það er búið að afgreiða þessar fjárheimildir. Það er búið að festa þær inn á ríkisreikning en Alþingi fjallar svo um það hér ári seinna eða rúmlega til að samþykkja það eða ekki. Svona er þetta víðar í þessu frumvarpi. Þar eru upphæðir sem Alþingi stendur frammi fyrir því að búið er að ráðstafa fjárveitingum með þessum hætti.

Framsetningin á lokafjárlagafrumvarpinu var einnig gagnrýnd í fjárlaganefnd. Við höfum tiltölulega fast framsetningarform á frumvarpi til fjárlaga, sömuleiðis á frumvarpi til fjáraukalaga þar sem skýrt er undir hverjum lið hvað um er að ræða í nokkrum orðum þannig að hægt sé að glöggva sig á því.

Þetta frumvarp til lokafjárlaga hefur alveg sömu stöðu gagnvart þinginu og nefndinni og frumvarp til fjárlaga eða frumvarp til fjáraukalaga. Samt eru allar upplýsingar af skornum skammti og það verður að grafa þær upp og kalla sérstaklega eftir þeim. Hérna eru þó margar síður, langir dálkar um breytingar á fjárveitingum og fjárhagsstöðu fjölmargra stofnana og viðfangsefna, oft og tíðum án nokkurra skýringa á því hvað þarna er á ferðinni. Ég spyr því hv. formann fjárlaganefndar hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að þetta verði þá unnið með skikkanlegum hætti. (Forseti hringir.) Við vildum reyndar senda þetta inn í fjármálaráðuneytið aftur, það hefði verið hin rétta krafa.