135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[15:42]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil víkja að texta í II. kafla umrædds nefndarálits þar sem segir:

„Þessar ákvarðanir eru teknar í fjárlögum eða eftir atvikum í fjáraukalögum. Á sama hátt er það Alþingi eitt sem getur breytt ákvörðunum af þessu tagi. Með hliðsjón af þessum skýru fyrirmælum verður að telja engum vafa undirorpið að nauðsynlegt sé að afla sérstakrar heimildar Alþingis til þess að breyta ákvörðunum um greiðslur eða framlög úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum ...“

Síðar segir:

„Einnig er það óæskilegt að sérstakir fjárlagaliðir sem ekki hafa birst í fjár- eða fjáraukalögum komi fyrst fram í lokafjárlögum og Alþingi hafi þannig ekki fengið tækifæri fyrr en í lokafjárlögum til að fjalla um tiltekið viðfang.“

Og að lokum:

„Á meðan stjórnarskrá er ekki breytt í þessum efnum verður Alþingi því jafnan að taka afstöðu til þess í lokafjárlögum hvernig ráðstafa beri þessum tekjum [og/eða þá gjöldum].“

Það erum við að gera í umræðum um lokafjárlögin. Fyrst því er beint til mín hvort ég muni beita mér fyrir því að þetta verði með öðrum hætti þá mátti hugsanlega skynja það í ræðu minni og fyrri ræðum að ég teldi það, líkt eins og fleiri nefndarmenn í fjárlaganefnd, að þetta ætti að vera með öðrum hætti. Það má segja að nefndarálit það sem hér birtist — og ég skynja það líka á nefndaráliti minni hlutans að fjárlaganefndin er samstiga í þeirri vegferð að vilja hafa hlutina með öðrum hætti en nú er. Einnig hef ég fundið fyrir því að fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti svo og Ríkisendurskoðun styðji þessa fyrirætlan okkar.