135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:15]
Hlusta

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan þakkaði ég minni hluta fjárlaganefndar, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, Bjarna Harðarsyni og Guðjóni Arnari Kristjánssyni, fyrir nefndarálit þeirra sem Jón Bjarnason hefur hér gert grein fyrir. Efnislega er mjög margt gott í því og er vikið að fjölmörgum þáttum. Það má kannski segja sem svo að álit meiri og minni hluta falli saman að nokkru.

Hér hefur verið beint til mín nokkrum spurningum, m.a. um fjárlagalið sem lýtur að sýklahernaði. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þann fjárlagalið sérstaklega þannig að ég hafi um hann skýringar eða athugasemdir. Ég geri mér grein fyrir því hvernig unnið var úr því gagnvart því ráðuneyti sem fór með þær fjárveitingar og útfærslu á málinu.

Það var nokkuð um óbilgjörn skot að mínu viti í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar og hann verður að eiga það allt við sjálfan sig. En ég vil hins vegar nota tækifærið og þakka honum það traust sem hann hefur sýnt okkur varðandi ýmis verkefni sem breyta nokkru í fjárlaganefndinni. Ég hef trú á því að við höfum breytt ýmsu og mun varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, koma að því í ræðu sinni síðar í dag hverju við höfum náð fram og fjalla efnislega um það.

Ég vil ekki eiga orðastað við hv. þingmann um fleiri atriði heldur ég þakka honum fyrir ræðuna og það nefndarálit sem minni hlutinn (Forseti hringir.) vann.