135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:19]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég get nú ekki sagt að ég bíði mjög spenntur eftir síðari ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, félaga okkar ágæts úr fjárlaganefndinni, en umræðan um það frumvarp sem hér liggur fyrir hefur teygst töluvert. Ég tek undir þær áherslur sem komu m.a. fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar í framsögu hans með nefndarálitinu varðandi valdsvið, verkefni og ábyrgð á fjárlögum íslenska ríkisins þegar þau eru sett, hvernig það skiptist og hvaða áherslur eru uppi í þeim efnum.

Það er óumdeilt að það er grundvallaratriði í öllum þingræðisríkjum að valdið til þess að ákvarða skatta og gjöld liggur hjá löggjafanum og af því leiðir að fjárstjórnarvaldið er í höndum Alþingis Íslendinga. Það er óhjákvæmilegt við umræðu um lokafjárlögin, eins og umræðan hefur endurspeglað, að þetta atriði komi til umræðu og hugleitt síðan með hvaða hætti þessi lög eru virt. Umræður undangenginna ára hafa margoft gengið út á að um þetta og ýmis önnur álitaefni er tekist. Vilji Alþingis er að mörgu leyti mjög skýr í þessum efnum og það hefur oft verið ítrekað.

Það kemur hins vegar ágætlega fram að í áliti meiri hluta og í nefndaráliti minni hluta að það eru þó nokkuð mörg atriði í lokafjárlögunum sem benda til þess að margt megi betur fara og upp á okkur stendur sem sitjum hér á Alþingi að leita úrbóta í þeim efnum þar sem þörf er á.

Við getum líka verið sammála um að á undanförnum árum hefur verið gerð nokkuð mikil breyting á þessum efnum til batnaðar, vil ég meina, með því verklagi sem tekið hefur verið upp varðandi fjárlagagerðina. Í meginatriðum miða þær breytingar að því að draga úr miðstýringu í ríkisrekstrinum, auka þá frelsi og ábyrgð bæði ráðuneytanna og stjórnenda þeirra stofnana sem undir þá heyra til að ráðstafa þeim fjármunum ætlaðir eru til starfsemi þeirra á hverju ári. Þetta kallar á að ráðuneytin þurfa að forgangsraða og deila út fé á stofnanir en um leið eru ráðuneytin að hluta til komin með fjárstjórnarvald. Mætti því með réttu halda því fram, eins og komið hefur fram í umræðu, að innan hvers fagráðuneytis ætti að vera starfandi einhvers konar „fjármálaráðuneyti“ sem ber ábyrgð gagnvart ríkisstjórn og Alþingi á starfsemi viðkomandi ráðuneytis innan fjárlaga ársins. Hugsunin og vilji Alþingis í þessum efnum er ágætlega undirstrikaður í ákvæðum fjárreiðulaga og nægir í því sambandi að nefna 49. gr. um ábyrgð stjórnenda sem margoft hefur verið ítrekuð í athugasemdum og skýrslum Ríkisendurskoðunar.

Ef maður fer aðeins yfir þær reglur sem innleiddar hafa verið við fjárlagagerðina þá kemur ágætlega þar fram hvert hlutverk fjármálaráðuneytisins í þessum efnum á að vera. Því er einungis ætlað að eiga bein samskipti við fagráðuneytin og í undantekningartilvikum við einstakar stofnanir sem heyra undir þau. Í þessu felst að fagráðuneytunum er ætlað að bera fjárhagslega yfirstjórn á þeirri starfsemi sem undir þau heyra ekki síður en þá fjárhagslega ábyrgð sem á þau hefur verið lögð gagnvart viðkomandi stofnunum.

Ég sagði hér áðan að margoft hefði komið fram á Alþingi ríkur vilji til þess að fjárstjórnarvaldið væri betur virkt við framkvæmd fjárlaga. Ég vil ítreka enn og aftur, ekki síst í ljósi umræðunnar hér áðan, þennan vilja og vil taka undir þau orð sem koma fram í meirihlutaáliti fjárlaganefndar varðandi það atriði. Ég heiti á alla þá sem þessum málum tengjast að leggjast nú á eitt og reyna að bæta hér úr. Meðan lögunum er ekki breytt verðum við að horfa til þess að fjárlögin eru ekki einhvers konar fjárhagsáætlun ríkisins heldur ófrávíkjanleg fyrirmæli þingsins um ráðstöfun fjár. Um það held ég að allir geti verið sammála og þetta verður aldrei of oft ítrekað.

Ég get á margan hátt tekið undir þau atriði sem hér hafa komið fram í umræðunni sem lúta að því sem við getum nefnt fjárstýringu íslenska ríkisins. Við getum sagt með sanni að við ætlum að halda okkur við hreinan og kláran lagabókstaf og fyrirmæli og sagt að þegar útgjöld einstakra ríkisstofnana eru fjármögnuð án heimilda megi í rauninni halda því fram að fjárstjórnarvaldið hafi verið tekið af þinginu. Því gætum við haldið því fram samkvæmt lagabókstaf. Þannig geta hlutirnir ekki gengið, það er langur vegur frá. Við getum alveg fallist á að það eru ekki nokkur rök fyrir því að stöðva reksturinn þar til starfsemi og samkomulag getur orðið um það á Alþingi að reyna að ná fram einhverjum breytingum á fjárlögum hvers árs til þess að koma stofnunum áfram til rekstrar.

Við höfum rætt þetta margoft innan núverandi fjárlaganefndar og m.a. átt viðræður við fjármálaráðuneytið um það efni. Hlutur fjármálaráðuneytisins í þessu verkefni öllu hlýtur að vera sá að halda utan um það hvernig fagráðuneytin fara með fé sitt og ég vil undirstrika að það er ríkur vilji innan fjármálaráðuneytisins til þess að bæta úr þessu verklagi. Þeir hafa einnig sýnt það og við hljótum þá að vilja standa með þeim í því hlutverki sem þeim er ætlað af lögum hvernig framkvæmd fjárlaga á sér stað og styrkja stöðu þeirra til að takast á við þetta verkefni.

Ágætt dæmi um þetta er að finna í erindi sem við fengum í fjárlaganefndinni í morgun í matarhléi sem lýtur að framkvæmd fjárlaganna. Er full ástæða til þess að taka það inn hér við þessa umræðu. Þar kemur ágætlega fram að fjármálaráðuneytið beinir þeim tilmælum til fagráðuneyta að bæta verklag sitt við eftirfylgni og framkvæmd fjárlaganna og hvetur þau til þess að grípa fyrr og markvissara inn í fjármál þeirra stofnana sem ítrekað fara fram úr fjárheimildum eða sinna ekki skyldu sinni varðandi framkvæmd fjárlaga. Þau beiti jafnframt þeim úrræðum sem fyrir hendi eru til að ná þeim markmiðum sem þeim eru sett innan þess ramma sem fjárlögin heimila. Ráðuneyti fjármála hefur tilkynnt ráðuneytinu með sérstöku bréfi að þau muni óska eftir skýringum og aðgerðum hjá viðkomandi ráðuneytum og stofnunum í þeim tilfellum sem þörf er á.

Þetta er vissulega mjög gott mál og ég hvet fjárlaganefndarmenn til þess að styrkja og styðja ráðuneyti fjármála í því vandasama verkefni sem því er ætlað í þessum efnum. Ég get hins vegar ekki tekið undir það með neinum hætti sem kemur fram í nefndaráliti minni hluta hér að stór hluti fjárlaga hvers árs sé marklaus þegar þau eru samþykkt. Það er á engan hátt hægt að líta þannig á. Það er ekki með nokkurri sanngirni hægt að halda þessu fram því að fjárlögin og útgjöldin hljóða þar upp á 430 milljarða og mér finnst töluvert langt til seilst í því efni að halda þessu fram.

Hv. þm. Jóns Bjarnasonar lýsti yfir vonbrigðum í ræðu sinni áðan með vinnubrögð núverandi meiri hluta fjárlaganefndar við það að ná fram breytingum og ég tek þá í því efni undir orð hv. formanns fjárlaganefndar að mikil er trú hv. þingmanns á getu þeirra einstaklinga sem skipa meiri hluta hv. fjárlaganefndarinnar til þess að breyta því stóra og þunga kerfi sem hér um ræðir, ríkisrekstrinum. Það verður ekki gert í einu vetfangi. Það er langur vegur frá. En vissulega sjáum við ákveðnar breytingar til batnaðar í ljósi þeirra áherslna sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram og kynnt fjármálaráðuneytinu. Það er engin ástæða til að ætla annað en að vilji sé til samstarfs þar á bæ. Vilji fjárlaganefndarinnar liggur til þess að styrkja það ráðuneyti í sínum góðu störfum.