135. löggjafarþing — 111. fundur,  28. maí 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:33]
Hlusta

Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta ekki hreystilega sagt. Við erum að tala annars vegar um ákvæði stjórnarskrárinnar, um að ekki skuli inntar af hendi greiðslur úr ríkissjóði án heimildar, og við erum líka að tala um einn mikilvægasta stjórnsýsluþáttinn, að fara að lögum um fjárreiður ríkisins en ræður hv. þingmanna hafa gengið út á að þar sé víða pottur brotinn og margt megi betur fara. Eitt fyrsta atriðið í þeim efnum væri, bæði gagnvart stjórnarskránni og gagnvart lögum um fjárreiður ríkisins og starfsháttum Alþingis, að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga sem tæki til þeirra breytinga sem nú liggja fyrir. Í sjálfu sér þurfa ekki að vera deilur um það, ef það er samkvæmt lögum sem Alþingi hefur samþykkt þá er það hið eðlilegasta mál.

Ég tel að okkur beri að fara að stjórnarskránni, að fjárreiðulögum, um að flutt verði frumvarp til fjáraukalaga.