135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:21]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna umræðunni um það mál sem við ræðum nú vegna þess að ég tel að við getum lært af þessu máli. Það vill svo til að sú sem hér stendur var á umræddu söguþingi 2006 þegar Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur upplýsti um heimildir sínar um hleranir og síðan fylgdi sagnfræðingurinn Kjartan Ólafsson málinu eftir meðan rannsóknum sínum og megi þeir báðir eiga þökk fyrir að leiða þetta mál fram til þessarar umræðu.

Ég held að engum blandist hugur um að á sínum tíma var allt of langt seilst í mati á því hvað snerti öryggi ríkisins á þessum áratugum og með þeim hlerunum og eftirliti sem haft var með íslenskum ríkisborgurum hér á landi undir því yfirskini að þessir einstaklingar ógnuðu öryggi ríkisins. Engar sannanir hafa verið færðar fram um sekt þeirra eða að þeir hafi ógnað öryggi. Aðalatriðið í mínum huga er að hvernig sem vindar blása í heimsmálunum hverju sinni verður alltaf að gæta að friðhelgi einkalífsins. Mannréttindi þarf alltaf að hafa í huga. Við eigum að harma að þetta hafi gerst á sínum tíma og aðalatriðið núna er að tryggja að ekkert sambærilegt sé að gerast í nútímanum eða gerist í framtíðinni.