135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

símhleranir á árunum 1949 til 1968.

[18:26]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í gær birtist grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Það sem kom í ljós þegar leyndinni var aflétt“. Höfundur er Kjartan Ólafsson. Þar er birtur listi yfir 32 heimili og nöfn þeirra einstaklinga sem þar bjuggu. Öll þessi heimili voru hleruð. Það sagði mér stúlka sem ólst upp á einu þessara heimila sem hlerað var 1949 að það hefði alltaf leikið grunur á því á sínu heimili að heimilið hefði verið hlerað en þegar bréfið barst fyrir nokkrum mánuðum eða missirum með stimpli íslenska ríkisins sem staðfesti að svo hefði verið, hefði farið um sig hrollur. Þessum hrolli þarf að ná úr þessum einstaklingum og úr þjóðinni en það er hægara sagt en gert eftir þá ræðu sem við heyrðum frá hæstv. dómsmálaráðherra áðan.

Menn tala um að erfitt sé að dæma löngu liðna atburði. Sagan hefur fellt sinn dóm. Það var ráðist inn á heimili saklauss fólks sem hafði unnið sér það eitt til óhelgi að vera á öndverðum meiði við ríkjandi stjórnvöld í landinu. Sá maður sem ég vitnaði til hér og er faðir þessarar stúlku var sviptur kosningarétti vegna atburðanna fyrir framan Alþingishúsið árið 1949. Þingmenn skulu vara sig á því, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerði, að fella dóma yfir þessu fólki. Ég frábið það. Það er kannski ekki svo langt á milli atburðanna 1949 og ársins 2008 og það var gott að við skyldum minnt á það að fyrir Alþingi liggur núna frumvarp sem fjallar nákvæmlega um þetta: Heimildir ríkisins til að njósna um fólk. Við skulum stíga varlega til jarðar, (Forseti hringir.) við skulum gera það, hv. þingmenn.