135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:38]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir tveimur málum sem verið hafa í vinnslu á vegum ríkisstjórnarinnar. Hið fyrra er frumvarp sem varðar greiðslu bóta til manna sem talið er að eigi rétt á slíkum bótum vegna meðferðar á Breiðavíkurheimilinu svokallaða. Þegar það mál var rætt hér fyrr á þessu þingi upplýsti ég að ríkisstjórnin hefði ákveðið að láta vinna frumvarp um málið og að vonandi yrði hægt að leggja það fyrir Alþingi í byrjun maímánaðar. Því miður er málinu ekki lokið hvað varðar fullvinnslu þess á vegum ráðuneytisins. Það kemur því ekki fram í vor en við stefnum að því að leggja slíkt þingmál fram í haust. Málið er sem sagt enn á vinnslustigi þó að það sé langt komið.

Ég vil enn fremur láta þess getið hér um svonefnd eftirlaunalög frá 2003 að við formenn stjórnarflokkanna höfum rætt það mál ítarlega upp á síðkastið. Við höfum beint þeirri ósk til formanna annarra stjórnmálaflokka hér á Alþingi að allir formenn flokkanna vinni sameiginlega að því að finna á því viðunandi lausn. Hafa þeir tekið vel í þá málaleitan. Ég geri ráð fyrir því að við munum vinna sameiginlega að þingmáli í sumar sem kæmi þá fram á næsta þingi og af því leiðir að ekki kemur fram þingmál frá ríkisstjórninni nú í vor.