135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:40]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem forsætisráðherra hefur gefið hér þó að mér hafi ekki verið ókunnugt um að hún væri á leiðinni. Hún lýtur annars vegar að því að fyrir liggur mikilvægt frumvarp sem felur í sér að reynt verði að bæta fyrir þann miska sem börn urðu fyrir, börn sem send voru á Breiðavíkurheimilið, og e.t.v. önnur heimili, fyrir áratugum síðan. Það er verið að bæta fyrir misgjörðir fyrri áratuga með slíku frumvarpi og það er auðvitað mikilvægt.

Hitt málið lýtur að því að bæta fyrir mistök sem Alþingi gerði árið 2003 við lagasetningu í eftirlaunamálinu. Mér finnst það góðs viti að það mál fari í þann farveg að formenn flokkanna komi að því að leysa úr því vegna þess að það mál átti á sínum tíma upphaf sitt hjá formönnum flokkanna. Ég tel því að þetta sé farsæl lending og vona að við getum öll sammælst um að lagfæra eftirlaunalögin og finna lausn á því máli sem við getum lifað við og sem þjóðin verður sæmilega sátt við.

Ég tel þetta tvennt mikilvægt að þarna er verið að leiðrétta í öðru tilvikinu misgjörð og í hinu tilvikinu mistök sem gerð voru við lagasetningu. Ég fagna því að við getum lokið þessu þingi með því að þessi mál séu komin í góðan farveg. Ég hef nokkuð látið eftirlaunamálið til mín taka og haft á því skoðanir. Ég hef sagt, og sagði það í umræðu hér í þinginu ekki alls fyrir löngu, að ég teldi mikilvægt að hægt væri að ná sátt um þetta milli allra flokka. Ég vona að þetta sé vísir að því og að við getum lent málinu saman.

Nær fimm ár eru liðin frá því að þessi lög voru sett. Það hefur haft þau áhrif að réttur hjá allmörgum einstaklingum hefur orðið virkur á þeim tíma. En betra er seint en aldrei og þess vegna fagna ég því að niðurstaða sé fengin í þetta mál.