135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

yfirlýsing frá forsætisráðherra.

[18:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsætisráðherra gaf og snúa að fólki sem nú er komið til fullorðinsára en var vistað sem börn á Breiðavíkurheimilinu. Það á vissulega rétt á því að það sé gaumgæft vel hvernig bæta eigi það sem þar fór úrskeiðis, taka á fortíðinni og vinna málið þannig að fólk njóti bóta fyrir misgjörðir þó að slíkar misgjörðir verði aldrei bættar með fjármunum. Það er þó a.m.k. viðurkenning á því að virða eigi rétt manna að þessu leyti. Ég tek undir það sjónarmið, vanda þarf vel til verka þegar slíkt er gert. Fleiri kunna að koma á eftir þegar málið hefur verið lagt upp og við þurfum að gera ráð fyrir þeim möguleika. Því ber að vanda þessa vinnu og ég tel eðlilegt að málið sé í vinnslu og komi hingað inn á haustdögum til afgreiðslu.

Varðandi eftirlaunamál þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna er alveg sjálfsagt að fara í það mál. Mér finnst — og er þar af leiðandi ósammála því sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan — að við þingmenn eigum að vinna þessi mál, ég vil að við tölum um kjör okkar. Ég vil að við tölum um kjör okkar fyrir opnum tjöldum en ekki á síðustu klukkustundum fyrir jól eða á síðustu klukkustundum fyrir þinglok.

Ég hef staðið í kjarabaráttu fyrir stétt mína í áratugi og það er ekkert öðruvísi en hjá okkur þingmönnum, við eigum líka ákveðinn rétt. Við eigum að þora að tala um hann og leggja hann upp fyrir þjóðina eins og hann er, færa rök fyrir því hvers vegna lífeyrisréttur á að vera með þessu lagi en ekki hinu og finna fyrir því sanngirnisrök sem þjóðin og við getum fellt okkur við. Það er skoðun mín.

Til að ítreka það vil ég benda á að réttur almennra þingmanna við þessa lagasetningu var ekki aukinn. Miðað við að venjulegir þingmenn starfa hér í tæplega tólf ár — þegar ég skoðaði þetta á sínum tíma voru það 11,3 ár að meðaltali — fengu þeir þingmenn ekki aukinn rétt. Við greiddum hins vegar 5% inn í lífeyrissjóðinn í staðinn fyrir 4% en fengum engan aukinn rétt fyrir það miðað við starfsaldur okkar. Við verðum að þora að tala um kjörin okkar eins og þau eru.

Hins vegar er það svo að réttur ráðherranna var verulega aukinn og það er deilumál og verður deilumál þangað til við lagfærum það og breytum því. (Gripið fram í: … forsætisráðherra?) Við eigum því að fara í gegnum þessi mál opið og heiðarlega, ræða það fyrir opnum tjöldum hvernig kjör þingmanna eiga að vera að því er varðar lífeyriskjör okkar. Önnur kjaramál okkar eru hjá svokölluðum Kjaradómi eða kjaranefnd sem ákveður breytingar á launakjörum okkar. En að þessu leyti sem snýr að eftirlaunamálum, held ég að við eigum að taka þá umræðu opið og fara í gegnum það. Vissulega voru gerð ákveðin mistök í þeirri lagasetningu og við þurfum að leiðrétta það. Það er hins vegar ekki einfalt mál en það þarf að takast á við það og fara yfir það bæði af skynsemi og rökfestu og taka tillit til þess sem gerist almennt í þjóðfélaginu að því leyti til.