135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:11]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Magnússon kom með nokkuð margar spurningar. Ég treysti mér ekki til að svara þeim öllum í andsvari. Í fyrsta lagi: Hvað gerist ef maki kaupandans hefur átt eign áður? Það er tekið á því í frumvarpinu í 35. gr. eða 1. gr. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Hafi maki kaupanda og skuldara eða sambúðaraðili áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði greinarinnar til niðurfellingar stimpilgjalds aldrei vera meiri en nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins stimpilfrjálsa skjals.“

Þetta er alveg kristaltært. Ég held að ég þurfi ekki að svara þessu frekar. Þeir sem hafa lesið frumvarpið vita það. Það var reyndar líka rætt í 1. umr.

Svo vildi hv. þingmaður afnema stimpilgjaldið alveg og ég er svo hjartanlega sammála. Ég er búinn að vera sammála því í 20 ár, herra forseti, að fella niður stimpilgjaldið. En það verður að bíða þar til efnahagslegar aðstæður eru til þess. Í nefndarálitinu er það sérstaklega tekið fram. Þar stendur — og þetta er mjög vandlega orðað, herra forseti:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa [þ.e. þegar þenslan minnkar á fasteignamarkaðnum]. Nefndin telur líklegt að staðan á fasteignamarkaði leyfi niðurfellingu stimpilgjalds en þar sem misvísandi teikn eru um stöðu í efnahagsmálum í heild sinni telur nefndin ekki tímabært að stíga það skref til fulls þótt um það séu skiptar skoðanir.“

Það er nefnilega þannig að nefndin hélt fund þar sem óskað var eftir áliti ýmissa aðila í þjóðfélaginu á því hvort það væri þensla eða kreppa hér. Niðurstaða þess fundar var sú að hér væru bæði þensla og kreppa. Meðan svo misvísandi teikn eru á lofti í þjóðfélaginu er dálítið varasamt að fara í gang með almenna skattalækkun. Að láta þetta taka til fyrstu íbúðar er ekki nema brot af markaðnum og brot af stimpilgjaldinu enda kemur það fram í kostnaðarálitinu.

En það er meira en þetta, herra forseti. Íslenskt atvinnulíf er nú undir smásjá heimsins þar sem menn skoða allt sem gert er, hvort Ísland sé traustsins virði o.s.frv. með geysilega háa stýrivexti, eins og hv. þingmaður nefndi með réttu. Erlendir aðilar mundu líta á það sem afskaplega slæmt „teikn“, svo að ég noti það orð, ef Íslendingar færu í sama mund að lækka skatta. Ef til almennrar skattalækkunar kæmi, öll stimpilgjöld yrðu lögð niður, væri það mjög slæmt „teikn“ inn í hið alþjóðlega umhverfi og menn mundu spyrja: Hvað er að gerast á Íslandi? Seðlabankinn er að reyna að hemja þensluna og löggjafarvaldið eykur hana. Ég hélt að menn vissu þetta, mundu skynja þetta. (Gripið fram í: Ertu ekki að fara að lækka skatta á þessum sviðum?) Til dæmis, hvað? (Gripið fram í: Var ekki fellt niður ...?) Við höfum verið að lækka skatta í sambandi við kjarasamninga og það er fórnarkostnaður til að ná fram mjög skynsamlegum kjarasamningum sem eru líka mjög gott teikn. (Gripið fram í: Hvað með söluhagnað?) Söluhagnað, já, það var hluti af kjarasamningunum. En söluhagnað fyrirtækja — menn vissu að það að voru jákvæð teikn fyrir alþjóðasamfélagið. Það var margrökstutt að það gæfi ríkissjóði engar tekjur, þetta væri feitur fugl í skógi en ekki í hendi og sem kunnugt er, er betra að hafa einn fugl í hendi heldur en tvo flögrandi í skógi.

Þá er það spurningin með gestina. Hv. þingmaður segir að umsögn hafi borist frá sýslumanninum í Hafnarfirði og það sé ekki sá aðili sem hafi mest um þetta að segja. Fulltrúum í nefndinni er frjálst að biðja um umsagnir frá aðilum eins og kunnugt er. Það er alltaf þannig. Ég er mjög opinn fyrir því að fá sem flesta aðila til að koma með umsagnir. Ekki bárust fleiri umsagnir eða beiðnir um slíkt eða fleiri gestir þannig að það er lítið hægt að gera við því.

Þá held ég að ég sé búinn að svara flestum spurningum hv. þingmanns. Ég ætla að vona að ég hafi svarað þeim öllum. — Já, ábyrgð sýslumanna. Eftir því sem mér skilst varðandi þá ábyrgð er um að ræða stjórnunarábyrgð, þ.e. hver á að sjá um verkið, og það er sýslumaður. Síðan sagði hv. þingmaður að íbúðabyggingar væru stóriðja á Reykjavíkursvæðinu. Það má vel vera en ég skal segja honum ... (JM: Á höfuðborgarsvæðinu.) Á höfuðborgarsvæðinu, en ég get sagt hv. þingmanni að þjóðin lifir ekki lengi á því að byggja íbúðir handa sjálfri sér þannig að það er ekki stóriðja til frambúðar fyrir þjóðina í heild sinni.