135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:26]
Hlusta

Frsm. efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef verið upplýstur um að það var óskað eftir umsögnum frá öllum sýslumönnum í landinu en barst einungis umsögn frá einum. Varðandi það sem hv. þingmaður sagði að aldrei sé hægt að lækka skatta, þetta hef ég svo sem sagt áður líka, að þegar þensla og mikið fjör er í atvinnulífinu þá er ekki hægt að lækka skatta vegna þess að þá eykur það þensluna og þegar það er kreppa þá er heldur ekki hægt að lækka skatta því þá þurfa ríki og sveitarfélög á öllu sínu að halda, öllum sínum peningum.

En samt hefur mönnum tekist að lækka skatta umtalsvert á undanförnum árum. Umtalsvert. Menn hafa gert það langt fram í tímann og með hægðinni og það er stefnan að fella niður stimpilgjaldið. Þess vegna orðum við þetta þannig í greinargerðinni: „Hins vegar kann að styttast í að staða efnahagsmála gefi færi á að fella gjaldið niður að fullu.“

En á sama tíma og Seðlabankinn sem á að gæta að verðlagi í landinu heldur uppi mjög háum stýrivöxtum vegna þess að hann telur að það sé þensla þá yrði mjög misráðið að Alþingi Íslendinga kæmi með allt annað teikn inn í efnahagslífið og segði: Við ætlum að lækka skatta. Það er þetta sem ég átti við. Þegar Seðlabankinn fer að lækka stýrivexti sína sem allir búast við, þá býst ég við að það styttist í það að hægt sé að fella niður stimpilgjaldið, hvenær sem það nú verður.

Misvísandi teikn um þenslu eða kreppu — það er nefnilega þannig að á þessu ári fer hið opinbera út í alveg gífurlega fjárfestingu, mig minnir að ég hafi séð einhvers staðar 130 milljarða og það veldur þenslu á sama tíma og íbúðamarkaðurinn er að skreppa saman og mér skilst á steypusölum að steypusala hafi sjaldan verið jafnmikil og undangengnar vikur.