135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áliti mannréttindanefndar SÞ.

[20:09]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega alveg dæmalaust að teygja þarf tunguna út úr hæstv. ráðherrum til að þeir svari spurningum. Það er margbúið í allan vetur að spyrja eftir þessu máli og hæstv. ríkisstjórn hefur haft 180 daga. Nú eru um 15 dagar eftir og aðeins einn dagur af þessu þingi og við höfum verið að spyrja eftir málinu.

Nú kemur í ljós að það sé svo sem sjálfsagður hlutur, segir forsætisráðherra, að kynna vinnu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur látið vinna. Ég fagna því eðlilega en ég undra mig samt á þessum vinnubrögðum af því að þetta er mjög stórt mál, bæði í umræðunni heima á Íslandi og ekki síður gagnvart heiðri okkar á erlendum vettvangi. Það hefði verið eðlilegra að gera þetta miklu fyrr.

Ég verð að segja fyrir mig sem formaður í flokki að mér þætti eðlilegt að þingflokkunum væri (Forseti hringir.) kynnt ef niðurstaða er komin. En kannski er engin niðurstaða til og ekkert til um málið. En við vonumst til að það sé ekki eitthvert snakk um ekki neitt. (Forseti hringir.)