135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

endurskoðendur.

526. mál
[20:58]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í stuttu máli að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef gert við nefndarálit efnahags- og skattanefndar. Eins og fram kom í máli framsögumanns nefndarinnar lýtur hann að tveimur þáttum í málinu. Ég vil annars vegar koma að þeirri athugasemd að það verklag sem birtist í frumvarpinu varðandi innleiðingu tilskipunar þeirrar sem málið sprettur frá er ekki að fullu í samræmi við handbók Stjórnarráðsins um það hvernig við stöndum að innleiðingu tilskipana. Reyndar má til sanns vegar færa að verklagið hefur ekki verið mjög samhæft hjá Stjórnarráðinu í þessu efni en við höfum átt því að venjast sem meginreglu að fram kæmi þingsálykunartillaga þar sem stjórnskipulegum fyrirvara sameiginlegu EES-nefndarinnar væri aflétt og síðan fylgdi lagafrumvarp um efnislega þætti málsins í kjölfarið.

Frumvarpið er eitt dæmi þess að vikið er frá þessari verklagsreglu. Vil ég leyfa mér að gera athugasemd við það og hvetja til þess að verklag í þessu efni verði samræmt. Eins og ég hef tekið fram eru fleiri dæmi um þetta í þeim frumvörpum sem nú liggja fyrir þinginu en ég vil þó jafnframt geta þess að utanríkismálanefnd hefur verið að skoða þessi mál sérstaklega og mun skila skýrslu til forseta þar sem komið verður inn á þessa þætti.

Hitt atriðið sem ég sá ástæðu til að gera fyrirvara við við afgreiðslu málsins lýtur að félagaskyldunni í Félagi löggiltra endurskoðenda. Mér þykja þau rök sem teflt hefur verið fram í málinu ekki vera fullnægjandi til þess að réttlæta skylduaðildina. Þess er skemmst að minnast að við vorum hér á þinginu með frumvarp um fasteignasala þar sem mjög kom til umræðu félagaskyldan að því félagi. Það mál var til umfjöllunar í allsherjarnefnd þar sem ég gegndi formennsku á síðasta kjörtímabili og var vissulega afgreitt með þeim hætti frá nefndinni að skylduaðild skyldi vera að því félagi. Það voru hins vegar tilmæli nefndarinnar á þeim tíma að það fyrirkomulag yrði endurskoðað að liðnum tveimur árum frá gildistökunni. Það hefur nú verið gert og viðskiptaráðherra í því tilviki lagt til við þingið að félagaskyldan að Félagi fasteignasala yrði felld niður.

Á vissan hátt er hlutverk Félags endurskoðenda sambærilegt þó að erfitt sé að gera fullan samanburð á milli þessara tveggja félaga hvað varðar hlutverk þeirra. Við hljótum engu að síður ávallt að halda í þá grundvallarreglu að sérstök rök þurfi að vera til staðar til þess að kveða á um félagaskyldu að félögum af þeim toga sem hér um ræðir. Ég hef því gert fyrirvara við þetta atriði og á enn eftir að sannfærast um að ekki sé hægt að viðhafa eftirlit með störfum endurskoðenda, annars vegar með þeirri nefnd sem mun starfa á vegum ríkisins, þ.e. endurskoðendaráðinu, og hins vegar með öðrum hætti án þess að félagaskyldunni sé viðkomið.

Hæstv. forseti. Í þessu felast fyrirvarar mínir. Tel ég ekki ástæðu til að lengja mál mitt frekar um það.