135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

almannatryggingar.

614. mál
[21:12]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, framsögumanni nefndarálitsins um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar sem nú er til umræðu, var ég fjarverandi þegar málið var afgreitt úr félagsmálanefndinni. Ég tók til máls í 1. umr. og ræddi um mikilvægi þeirra breytinga. Reyndar var hávaðinn svo mikill þegar það var vegna þess að bílstjórar þeyttu horn fyrir utan svo að þingmaðurinn sem hér stendur heyrði varla í sjálfum sér þegar hann talaði fyrir málinu. Ég tel því alveg fulla ástæðu til að ítreka að ég er mjög hlynnt þessu máli. Verið er að hækka frítekjumark örorkulífeyrisþega úr 27 þús. kr. á mánuði í 100 þús. kr. sem er veruleg hækkun, mikilvæg fyrir þá lífeyrisþega sem geta tekið þátt í atvinnulífinu. Þetta er einnig hvatning til þeirra til að fara út í atvinnulífið og bæta kjör sín og fara í atvinnu sem er mikilvæg endurhæfing fyrir marga lífeyrisþega og einnig til að auka félagslega virkni þeirra sem fara út í atvinnulífið.

Ég tel þetta því að öllu leyti mjög jákvæða breytingu og auðvitað nauðsynlega. Hún kemur heldur síðar inn en aðrar breytingar á almannatryggingunum sem sneru að öldruðum. En verið er að breyta lögunum til batnaðar fyrir öryrkjana. Þetta er reyndar bráðabirgðaákvæði vegna þeirra breytinga sem verið er að vinna að í örorkumatsmálunum þar sem miðað verður að að því að meta starfshæfni í staðinn fyrir örorku eða vangetu fólks til atvinnu. Ég tel þetta mjög mikilvægt og efast ekki um að það muni koma nýtt ákvæði inn í almannatryggingalögin þegar þetta bráðabirgðaákvæði rennur út.

Ég er, virðulegi forseti, heils hugar sammála málinu en hafði ekki tök á því að vera við afgreiðslu málsins úr nefndinni eins og kemur fram í nefndarálitinu.