135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:15]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, með síðari breytingum.

Félags- og tryggingamálanefnd fékk á fund sinn ýmsa aðila og leitaði eftir umsögnum og ætla ég ekki að telja upp þá sem þar komu við sögu.

Með frumvarpinu er m.a. litið til þeirra langtímaáhrifa sem útgáfa atvinnuleyfa getur haft á jafnvægi á vinnumarkaði. Eru lagðar til breytingar á reglum um útgáfu atvinnuréttinda til handa útlendingum og lagt til að teknar verði upp sex tegundir tímabundinna atvinnuleyfa í stað einnar tegundar almenns leyfis sem nú er veitt. Við veitingu leyfis verði litið til þeirra aðstæðna sem liggja að baki því að atvinnurekendur leita eftir því að ráða til sín erlenda starfsmenn. Frumvarpið felur einnig í sér breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og byggist sú breyting á efni tilskipunar nr. 2004/38/EB. Efni tilskipunarinnar lýtur aðallega að rétti ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins til að dvelja í öðrum aðildarríkjum í því skyni að starfa þar. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2000, og saman aðlaga frumvörpin lögin þeirri framkvæmd sem er viðhöfð við útgáfu dvalar- og atvinnuleyfa.

Frumvarpið breytir frá þeirri reglu að atvinnurekandi sæki um og fái útgefið atvinnuleyfi þar sem atvinnuleyfi er nú gefið út á nafn útlendings. Nefndin telur þessa breytingu mikilvæga réttarbót á stöðu útlendings. Tímabundin atvinnuleyfi eru þó skilyrt starfi hjá tilteknum atvinnurekanda. Upp komu hugmyndir um að tengja atvinnuleyfið við ákveðna atvinnugrein eða landshluta í stað atvinnurekenda en nefndin telur slíkt skapa ákveðið óöryggi fyrir starfsmanninn þar sem mögulegt er að hann fái útgefið tímabundið atvinnuleyfi án þess að hafa vinnu fyrir komu til landsins auk þess sem slíkt samræmist illa markmiðum laganna. Nefndin telur ekki ástæðu til að rýmka reglurnar frekar en gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um allar gerðir tímabundnu atvinnuleyfanna og þær reglur sem frumvarpið setur um þau. Þá ræddi nefndin m.a. þá reglu að ekki er hægt að fá framlengingu á tímabundnu atvinnuleyfi ef atvinnurekandi hefur ekki staðið skil á staðgreiðslu skatta sem og tryggingagjaldi lögum samkvæmt vegna starfa útlendingsins. Þau sjónarmið komu fram í nefndinni að með þessu væri útlendingurinn mögulega látinn gjalda fyrir hugsanleg svik atvinnurekandans. Á fundum nefndarinnar komu fram þær upplýsingar að óalgengt væri að engin skattskil væru gerð vegna starfa útlendings. Ákvæðinu er ætlað að auðvelda eftirlit með að starfsmaður stundi ekki vinnu hjá öðrum aðila en þeim sem atvinnuleyfið er bundið við en slíkt er óheimilt samkvæmt lögunum. Nefndin áréttar þó að útlendingur skuli ekki gjalda fyrir ef atvinnurekandi hans standi ekki skil á sköttum.

Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að rýmka ætti enn frekar reglur um atvinnuleyfi til útlendinga með sérfræðiþekkingu þar sem strangar reglur um þetta efni geti m.a. staðið háskólasamfélaginu hér fyrir þrifum ef erfitt er að fá erlenda fræðimenn til landsins. Einnig hefur það sjónarmið verið kynnt nefndinni að ef reglurnar eru of þröngar leiði það til þess að sérfræðistörf færist úr landi og íslensk fyrirtæki hætti að vaxa á innlendum markaði og vaxi fremur erlendis. Nefndin telur mikilvægt að haga reglunum þannig að íslenskum háskólum og fyrirtækjum sé gert kleift að ráða til sín menntaða og færa einstaklinga en telur jafnframt þær breytingar sem frumvarpið leggur til tryggi þetta.

Ákvæði um veitingu tímabundins atvinnuleyfis að nýju vegna skorts á vinnuafli kveður á um að heimilt sé að veita atvinnuleyfi af þessu tagi að nýju hafi útlendingur haft leyfið samtals í tvö ár og dvalist eftir það erlendis í tvö ár. Varð nefndin vör við að sá skilningur væri lagður í regluna að fengi útlendingur ekki hámarkstíma leyfis ásamt framlengingu, samtals tvö ár, gæti hann ekki fengið leyfið að nýju, sem væri einnig í ósamræmi við ákvæði frumvarps til laga um breytingu á lögum um útlendinga um veitingu dvalarleyfis að nýju vegna skorts á vinnuafli. Með vísan til a-liðar 10. gr. frumvarpsins er þó ljóst að ákvæðinu er ætlað að gera útlendingi kleift að fá atvinnuleyfi af þessu tagi veitt að nýju þegar hann skiptir um atvinnurekanda, án þess að þurfa að dvelja erlendis í tvö ár. Telur nefndin mikilvægt að útlendingur geti skipt um starf þó svo það lengi ekki þann tíma sem hann getur að hámarki dvalist í landinu. Leggur nefndin því til breytingar á ákvæðinu til að skýra regluna frekar.

Í frumvarpinu er sett sú regla að íþróttafólk sem fær tímabundið atvinnuleyfi á grundvelli b-liðar 7. gr. frumvarpsins getur ekki starfað samhliða starfi sínu hjá íþróttafélagi á almennum innlendum vinnumarkaði, þ.e. hann er bundinn við það að vinna eingöngu hjá íþróttafélaginu samkvæmt frumvarpinu. Hingað til hafa íþróttafélög, sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að greiða erlendu íþróttafólki há laun, eftir sem áður haft tækifæri til að ráða til sín fært íþróttafólk sem samhliða starfi sínu hjá félaginu hefur stundað vinnu á innlendum vinnumarkaði. Erlent íþróttafólk eflir íþróttastarf hérlendis og getur orðið ungu fólki innan íþróttahreyfingarinnar mikil hvatning. Telur nefndin mikilvægt að öll íþróttafélög sitji við sama borð hvað við kemur möguleikum á að ráða til sín erlent íþróttafólk og leggur því til breytingar á ákvæðinu.

Þá hefur nefndinni verið bent á að misræmis gæti á hámarksframlengingartíma tímabundins atvinnuleyfis fyrir íþróttafólk, sem er eitt ár, og dvalarleyfis fyrir íþróttafólk sem er tvö ár, skv. 2. málsl. 2. mgr. c-liðar 10. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Leggur nefndin til breytingu til að samræma þetta og lengja það þannig í tvö ár.

Nefndin telur ákvæði um tímabundið atvinnuleyfi vegna náms gera erlendum nemendum erfitt fyrir að stunda nám hér á landi. Erlendir nemendur hafa ekki jafnan aðgang að lánsfé og getur reynst erfitt að fjármagna nám hérlendis. Það getur einnig reynst háskólasamfélagi á Íslandi dýrmætt að fá til sín erlenda nemendur sem auðga fræðasamfélagið með nýjum sjónarmiðum og skoðunum. Auk þess er venja að íslenskir nemendur stundi vinnu samhliða námi sínu og telur nefndin eðlilegt að gæta jafnræðis hvað þetta varðar. Þá telur nefndin að setja beri skilyrði um að stunda þurfi fullt viðurkennt nám eða skila viðunandi námsárangri til að fá atvinnuleyfi af þessu tagi veitt eða framlengt. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga setur m.a. þau skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna náms að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt vottorði frá hlutaðeigandi skóla. Þá er fullt nám skilgreint í ákvæðinu sem 100% samfellt nám á háskólastigi, iðnnám eða það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, sbr. 1. og 2. mgr. f-liðar 10. gr. frumvarps til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Tekinn er af allur vafi um að einstök námskeið teljist ekki til náms. Til að fá framlengingu dvalarleyfisins þarf útlendingur auk þess að sýna fram á viðunandi námsárangur, a.m.k. 50% af fullu námi við fyrstu endurnýjun en 75% af fullu námi eftir það, sbr. 4. mgr. f-liðar 10. gr. frumvarpsins. Skilyrði fyrir veitingu tímabundins atvinnuleyfis vegna náms er m.a. að útlendingi hafi áður verið veitt dvalarleyfi vegna náms. Leggur nefndin því til að útlendingur sem fengið hefur dvalarleyfi vegna náms og uppfyllt öll skilyrði þess geti starfað samhliða námi sínu óháð því hvort starfið teljist hluti af námi hans eður ei. Þá telur nefndin skilyrði dvalarleyfis fyrir framlengingu einnig nægilega skýr til að geta orðið grundvöllur framlengingar á tímabundnu atvinnuleyfi vegna náms. Leggur nefndin til breytingar í samræmi við þetta.

Nefndin ræddi sérstaklega stöðu ungmenna sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur. Við 18 ára aldur teljast þau ekki til nánustu aðstandenda og taka þá við almennar reglur um útgáfu dvalar- og atvinnuleyfis, þó með þeirri undanþágu að ef útlendingur stundar nám í framhaldsskóla við 18 ára aldur getur hann áfram fengið útgefin dvalar- og atvinnuleyfi á grundvelli náms. Telur nefndin sanngirnisrök hníga að því að útlendingur sem náð hefur 18 ára aldri skuli eiga rétt á atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar stundi hann annaðhvort nám eða störf hér á landi þegar 18 ára aldri er náð. Er hér einkum litið til þess að tryggt sé að umrædd ungmenni haldi áfram að ávinna sér rétt til óbundins atvinnuleyfis, en tímabundið atvinnuleyfi vegna náms veitir ekki slíkan rétt. Leggur nefndin því til breytingu hvað þetta varðar og sambærileg breyting er lögð til á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga.

Þá leggur nefndin til að önnur breyting verði gerð á d-lið 7. gr. til samræmis við tillögu um breytingu á ákvæði um dvalarleyfi fyrir aðstandendur. Þar er lagt til að í undantekningartilvikum verði heimilað að endurnýja dvalarleyfi útlendings samkvæmt ákvæðinu þrátt fyrir að forsendur leyfisins hafi brostið vegna slita á hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð. Undantekningin á þó eingöngu við hafi útlendingur eða barn hans sætt ofbeldi í sambandinu. Það sjónarmið býr að baki að ekki skuli þvinga útlending áfram í hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð til að halda dvalarleyfi sínu ef viðkomandi einstaklingur eða börn hans sæta misnotkun eða ofbeldi af hálfu maka. Tekur nefndin undir með allsherjarnefnd hvað þetta varðar og telur eðlilegt að útlendingur sem fengið hefur undanþágu samkvæmt ákvæðinu fái jafnframt framlengingu tímabundins atvinnuleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Nefndinni hefur verið bent á misræmi varðandi réttaráhrif kæru þar sem útlendingur sem kærir synjun eða afturköllun dvalarleyfis getur dvalið á landinu meðan kæran er afgreidd en ef kært er vegna synjunar eða afturköllunar atvinnuleyfis þarf útlendingurinn að dvelja erlendis á meðan á afgreiðslunni stendur. Nefndin áréttar að ef kært er vegna beggja leyfanna samtímis kveður 15. gr. frumvarpsins skýrt á um að hafi Útlendingastofnun veitt leyfi til dvalar þurfi útlendingurinn ekki að dveljast erlendis meðan á afgreiðslu kæru stendur. Telur nefndin því ekki þörf á að skýra þetta frekar.

Nefndin telur mikilvægt að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi.

Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. ágúst 2008. Miðað er við að lög um breytingu á lögum um útlendinga taki gildi sama dag.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali, sem liggur hér fyrir nr. 1136.

Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ögmundur Jónasson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Undir álitið skrifa hv. þm. Guðbjartur Hannesson, Ármann Kr. Ólafsson, Árni Johnsen, Jón Gunnarsson, Pétur H. Blöndal, Kristinn H. Gunnarsson, Birkir J. Jónsson og, eins og áður sagði, Ögmundur Jónasson, með fyrirvara.