135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:27]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tel þetta frumvarp fagnaðarefni í sjálfu sér og ég er sérstaklega hlynntur því að sjá að útlendingur sem náð hefur 18 ára aldri skuli eiga rétt á atvinnuleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar stundi hann annaðhvort nám eða störf hér á landi þegar 18 ára aldri er náð. En ég tók eftir því að tímabundið atvinnuleyfi er enn þá skilgreint sem leyfi veitt útlendingi til að starfa tímabundið á innlendum vinnumarkaði hjá tilteknum atvinnurekanda. Sem stendur er útlendingur með atvinnuleyfi bundinn af því að vinna aðeins á einum stað eða sækja aftur um atvinnuleyfi ef hann vill vinna annars staðar. Svona umsóknarferli er ósveigjanlegt og erfitt fyrir bæði umsækjendur og atvinnurekendur.

Ég mundi frekar vilja veita erlendum starfsmönnum frelsi til að vinna þar sem þeir velja sjálfir starf. Það er líka í samræmi við það sem stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda, með leyfi forseta:

„Tryggt verði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilegra réttinda og íslenskt launafólk ...“

Þeir þurfa að hafa frelsi til að vinna þar sem þeir vilja og þar sem þeirra er þörf, frelsi til að byrja að vinna þegar þeir vilja það. Það er hluti af grunnréttindum starfsfólks. Því miður eru nokkur dæmi um að erlent starfsfólk fái borgað minna en íslenskir verkamenn, fái ekki mannsæmandi húsnæði og viti ekki einu sinni að stéttarfélög eru til í landinu. Þess vegna er búið að taka saman frábæran bækling fyrir innflytjendur sem útskýrir réttindi þeirra á nokkrum tungumálum. Þessar upplýsingar þurfa að komast í hendur hvers og eins sem flytur til landsins og hægt er að afhenda bæklinginn um leið menn fá atvinnuleyfi. Þegar þetta er tekið með í reikninginn geta allir unnið þær saman.

Atvinnuleyfi sem er afhent einstaklingum í ákveðinni starfsgrein veitir atvinnurekendum nauðsynlegt aðhald. Þeir sem fara illa með starfsfólk sitt eiga þá á hættu að missa það en hinir sem virða réttindi þess eiga auðveldara með að fá til sín gott starfsfólk. Það tryggir að enginn missir starf sitt vegna atvinnurekanda sem ætlar að reyna að blekkja erlent starfsfólk á kostnað íslenska starfsfólksins. Þar fyrir utan mundi þetta fyrirkomulag gera atvinnumarkaðinn sveigjanlegri og bæta þannig efnahag þjóðarinnar.

Ég bendi á að þessi tillaga hefur fengið þverpólitískan stuðning, þar á meðal frá ungum jafnaðarmönnum. Ég styð þetta frumvarp en hvet ríkisstjórnina til að taka þetta þverpólitíska og löngu tímabæra skref.