135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[21:33]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek að mörgu leyti undir það sem fram kom í máli hv. þingmanns Péturs H. Blöndals þar sem hann vakti athygli á þeim mannamun sem löggjöfin gerir á fólki utan Evrópusambandslandanna. Mér finnst ástæða til þess að vekja athygli á þessum sjónarmiðum og taka undir þau. Þau voru rædd í þingnefndinni.

Staðan er sú að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kveður á um frjálst flæði launafólks milli landa Evrópska efnahagssvæðisins en í þeim samningi eru engar kvaðir sem gera okkur skylt að loka vinnumarkaði fyrir fólki utan þessara landa. Okkur er heimilt ef við kjósum svo að hafa opið fyrir íbúa landa utan þessa svæðis.

Það er hins vegar eðlilegt, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, að það þarf að hafa einhverjar takmarkanir á því. Í heiminum eru 6.000 milljónir manns og við getum ekki tekið við öllum þeim sem kynnu að vilja koma. En ég er talsmaður þess, og veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal er mér sammála um það, að við höldum áfram að vinna að því að hafa meira jafnræði gagnvart íbúum utan Evrópska efnahagssvæðisins og reyna að ná samstöðu um leiðir til þess að opna einhverjar glufur fyrir ófaglært verkafólk utan Evrópska efnahagssvæðisins.