135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[22:10]
Hlusta

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í nákvæmar útskýringar á þeim ákvæðum í andsvari en vísa bara til laganna. Það verður að skoða útlendingalögin samhliða vegna þess að þau spila saman. En það er rétt að þau lög sem við erum að fjalla um fjalla fyrst og fremst og eingöngu um markaðinn utan ESB. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu því að við erum að fjalla um atvinnuréttindi fyrir þá sem koma og eru utan við Evrópusambandið.

Þar er verið að tala um reglur fyrir sex hópa sem geta komið inn á sérstökum leyfum. Það er alveg rétt að það eru íþróttamenn og námsmenn. Nefndin víkkaði út túlkanir á atvinnuheimildum fyrir íþróttamenn og námsmenn vegna þess að okkur fannst að eðlilegt væri að þeir fengju tækifæri til að vinna samhliða íþróttavinnunni, þ.e. vinna hjá íþróttafélagi, einfaldlega vegna þess að við töldum það koma til móts við smærri íþróttafélög úti á landi sem hefðu fjármagn m.a. til að ráða menn í vinnu og leyfðu þeim að spila íþróttina á meðan. Eins og ég segi er eingöngu verið að tala um fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Almennt er það svo að í þessum lögum er verið að fjalla um að menn geti innan ákveðins tíma fært sig á milli atvinnurekenda. Nú er atvinnuleyfi gefið út á einstaklinginn en það er háð því að viðkomandi hafi vinnu. (Gripið fram í.) Ef hann vill færa sig verður hann að vera kominn með vinnu á nýjum stað þegar hann færir sig. Það er breytingin sem er í frumvarpinu frá því sem áður var, án þess að ég ætli að fara nánar út í að skýra þetta og vísa bara til að menn skoði þessi tvö frumvörp. Hitt frumvarpið kemur síðar til umræðu og við höfum þá tækifæri til að skýra það betur í næstu umræðu.