135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[22:13]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Rætt er um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Eins og kom fram fyrr í umræðunni gerði hv. þm. Ögmundur Jónasson grein fyrir því að hann skrifaði undir nefndarálitið um málið með fyrirvara. Hann gerði enn fremur grein fyrir fyrirvara sínum hvað þetta atriði snertir.

Mig langar aðeins til þess að koma inn á málið frá því sjónarhorni, þ.e. þeim undantekningum sem verið er að gera varðandi tímabundið atvinnuleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar, sem kemur fram í 6. gr. frumvarpsins. Þar er gerð tillaga um að erlendir ríkisborgarar sem hafa sérstaka sérfræðiþekkingu eða búa yfir sérstakri sérfræðiþekkingu og atvinnulífið telur æskilegt eða áhugavert að fá til starfa, að um það gildi sérstakar reglur jafnvel þótt þær komi utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Viðhorf mitt til þessa atriðis er fyrst og fremst það að ég er þeirrar skoðunar að sömu reglur eigi að gilda um alla þá sem koma hingað til starfa, fá leyfi hér til starfa, fá atvinnuleyfi burt séð frá því hvort þeir búa yfir sérstakri sérfræðimenntun eða ekki. Mér finnst það í raun ekki viðeigandi að meðhöndla fólk með þeim mismunandi hætti eins og lagt er til að gert verði.

Nú skil ég mætavel þau viðhorf sem liggja á bak við og ég veit að atvinnulífið og mörg fyrirtæki, kannski ekki síst sprotafyrirtæki sem hafa verið að leita sér að fólki með sérfræðiþekkingu víða um heim, hafa talið að núgildandi lagaákvæði stæðu í vegi fyrir því að þau gætu sótt sér fólk með sérstaka þekkingu og jafnvel haldið því fram að það lagaumhverfi sem við búum við í dag ýtti undir það að fyrirtækin færu með starfsemi sína til annarra landa. Það kann vel að vera rétt og eigi við rök að styðjast. Ég ætla ekki að fullyrða alveg um það. Vel kann að vera að þetta sé vandamál sem þarf að taka á en mér finnst það ekki breyta þeirri grundvallarsýn að í raun eigi að meðhöndla fólk á sama hátt.

Ég get nefnt að á vettvangi EES-samstarfsins, sem við tökum þátt í, hefur m.a. verið rætt um nákvæmlega þetta atriði. Reyndar er mér kunnugt um að sú umræða fer líka fram innan Evrópusambandsins um þá hættu sem stafar af því að soga til sín fólk með sérfræðiþekkingu frá þróunarlöndunum. Þetta er áhyggjuefni sem yfirvöld í þróunarríkjunum eru líka meðvituð um og hafa rætt á svona samstarfsvettvangi við þróuð ríki. Þetta er kallað þekkingarsog, ef svo má segja, eða „brain draining“ þ.e. að þróuðu löndin séu að soga til sín fólk frá þróunarríkjum sem hefur yfir mikilli menntun og þekkingu að ráða og býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu, draga það til sín úr samfélögum sínum og hingað og greiða jafnvel hugsanlega lægri laun en þau greiða Íslendingum með sambærilega menntun. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta svolítið ógeðfellt, svo ég taki svo sterkt til orða, að viðhafa svona flokkun á fólki eins og hér er lagt upp með.

Í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar kom fram að hann fyrir hönd þingflokks okkar skrifar undir nefndarálitið og styður málið en hefur fyrirvara hvað þetta snertir. Mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum þetta af fullri alvöru, hvort við sem rík þjóð og þróað ríki vill í rauninni innleiða þá mismunun. Draga til sín menntað fólk frá þróunarríkjunum þar sem er gríðarlega mikil þörf fyrir það að sjálfsögðu, þar sem það er verðmætt í samfélagi sínu, draga það til okkar og soga þannig þekkingu úr þeim samfélögum og hingað en meðhöndla síðan aðra íbúa frá sömu löndum á allt annan hátt.

Við getum tekið dæmi frá ríkjum eins og Kína og Indlandi þar sem við vitum að þetta er að gerast í ríkum mæli. Vesturlönd og Bandaríkin, eða kannski ef við horfum á Evrópu í þessu sambandi, soga til sín vel menntað fólk frá löndum eins og Kína og Indlandi og fleiri ríkjum og meðhöndla það á sérstakan hátt. Ef fólk frá þeim sömu löndum sem ekki hefur sérfræðiþekkingu kemur hingað eða gæti fengið vinnu hér, þá á að meðhöndla það öðruvísi.

Mér finnst þetta vera röng skilaboð og röng stefna af ríki eins og okkar, þróuðu ríki, vel stæðu ríki, að meðhöndla fólk með þessum hætti. Ég held að við ættum líka að hugleiða vel hvaða afleiðingar þetta hefur fyrir þessi þróunarlönd. Nú kann vel að vera að einn og einn einstaklingur í því samhengi skipti ekki máli. En safnast þegar saman kemur og það eru ekki bara við hér á Íslandi sem erum að vinna á þessum nótum. Þetta er að gerast víðar í Evrópu. Það er því talsverður hópur vel menntaðs fólks frá þróunarríkjum sem sækir sér vinnu á Vesturlöndum. Mér finnst sjálfsagt að við bjóðum fólk velkomið hingað til starfa en ég tel afar mikilvægt að um það gildi ekki mismunandi lög og reglur.

Við mundum aldrei líða það gagnvart okkar eigin íbúum, gagnvart innfæddum Íslendingum að meðhöndla þá á þann hátt að láta hvor sín lög gilda um fólk eftir því hvort það hefur sérfræðimenntun eða ekki. Það mundum við aldrei gera. Af hverju eigum við að gera það gagnvart fólki sem kemur hingað til lands í atvinnuleit eða til þess að taka þátt í atvinnulífinu sem að sjálfsögðu þjónar okkur vel? Mér finnst þetta ekki góð lína sem verið er að draga hér og ég er svolítið undrandi á því að stjórnarmeirihlutinn skuli í raun leggja út í það að mismuna fólki með þessu móti. Mér finnst, ég ítreka það, mér finnst þetta fremur ógeðfellt.

En eftir sem áður styð ég við það að þessar reglur séu rýmkaðar en við hefðum gjarnan talið hvað 6. gr. varðar, að almennari gildisákvæði ættu að vera um það en hér er gerð tillaga um.