135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[22:25]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá síðustu ræðumönnum. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þegar rætt er um mál eins og þessi að gætt sé ákveðinnar hófstillingar í því að sækjast eftir vinnuafli frá svæðum sem eru ekki komin með jafnþróað efnahagskerfi og við höfum á Norðurlöndum og víðar í Evrópu.

Það er alltaf spurning hvernig með á að fara. Mér fannst hv. þm. Árni Þór Sigurðsson gera málinu mjög góð skil í mjög góðri ræðu sinni áðan. Hann rakti m.a. spurningarnar um hvaða tilgangi það þjónaði að soga hæfasta vinnuaflið og menntuðustu einstaklingana frá þjóðum sem væru að byggja upp grundvallaratriði sín, atvinnulíf og þjóðfélag. Þetta var akkúrat vandamálið sem Evrópusambandið tók ekki á þegar hinar nýju þjóðir Austur-Evrópu komu inn í Evrópusambandið og samþykkt var að óheft flæði vinnuafls frá hinum nýju ríkjum Evrópusambandsins, að frjáls för þeirra inn í landið skyldi gilda.

Ég tel að það hafi verið mjög slæmt, sérstaklega fyrir þær þjóðir sem þar var um að ræða, og komið í veg fyrir að þær gætu nýtt sér til fulls og byggt upp sína hluti hraðar en ella hefði verið. Mjög mikið af hæfu fólki fór úr landi og leitaði til landa, m.a. Englands og þess vegna Íslands en það var ekki til staðar, tiltækt hér heima fyrir.

Ég tel að þarna hafi verið gerð verulega stór mistök af hálfu Evrópusambandsins sem hefur leitt til þess að þróunin hafi ekki orðið eins ör eins og hefði orðið til að skapa einsleitan markað í hinum nýju ríkjum Evrópusambandsins og ella hefði orðið. Þau sjónarmið sem hér hafa verið færð fram hvað þetta varðar eiga því fyllilega rétt á sér.

En það er annað atriði sem ég vildi koma á framfæri. Það skiptir máli að þeir sem eru komnir hingað til lands, búa í landinu, alveg óháð því af hvaða þjóðerni, þ.e. útlendingar, njóti allir og eigi að njóta sömu réttinda. Við berum ábyrgð á því fólki sem hingað er löglega komið til landsins og það á að njóta sömu réttinda og aðrir, fullra mannréttinda, og við eigum aldrei að gefa afslátt af því.