135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

535. mál
[22:41]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Virðulegi forseti. Með þessari framkvæmdaáætlun er stigið sögulegt skref í rétta átt. Þó að ég hefði kosið að hún gengi lengra er hún samt fagnaðarefni í sjálfu sér. Ég vil benda á að við vinstri græn höfum lagt fram breytingartillögur varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum, sem er í anda þessarar framkvæmdaáætlunar. Mun ég hvetja til þess að allir þingmenn greiði atkvæði með því.

Þá yrði um að ræða töluverðar breytingar, þar á meðal yrði svokölluð 24 ára regla felld niður og séð til þess að þeir sem hvattir eru til að sækja um heilbrigðisvottorð geri það, ef ástæða er til að ætla að innflytjandi beri með sér smitsjúkdóm — af engri annarri ástæðu þarf að hvetja til þess.

Ég vil líka gera breytingu til þess að þegar mál útlendings um brot á dvalarrétti er fyrir dómstólum sé honum heimil dvöl í landinu á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum og líka að leiti útlendingar úrlausnar dómstóla um brottvísun sé honum heimil dvöl í landinu á meðan málið er til meðferðar hjá dómstólum. Ég tel það mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess að komið hefur upp í mörgum löndum að fólki er vísað úr landi á röngum forsendum og það hefur líka gerst hér — við skyldum ekki endurtaka slík mistök.

Virðulegi forseti. Ég vil hér fara yfir nokkrar breytingar sem ég legg til við þessa framkvæmdaáætlun.

Í II. kafla, Heildstæð framkvæmdaáætlun, undir heitinu Fjölmiðlar segir, með leyfi forseta:

„Því eru fjölmiðlar hvattir til að setja sér siðareglur um efnistök þegar fjallað er um málefni innflytjenda.“

Í stað þessara orða legg ég til að málsgreinin orðist svo:

„Því ber fjölmiðlum skylda til að setja sér siðareglur um efnistök þegar fjallað er um málefni innflytjenda.“

Ég legg þetta fram af því að þótt sérhver aðili hafi rétt til að setja sér sínar eigin siðareglur um efnistök þegar fjallað er um málefni innflytjenda tel ég nauðsynlegt og sjálfsagt að slíkar siðareglur séu til.

Í IV. kafla, Verkefni stjórnvalda, er í 2. lið fjallað um upplýsingar um innflytjendamál. Hér er um að ræða mikið fagnaðarefni en ég mundi leggja til að rannsókn á launum karla og kvenna meðal innflytjenda og viðhorfskönnun á lífsgæðum innflytjenda fari árlega fram frekar en á tveggja, fjögurra eða fimm ára fresti. Það mundi gefa okkur skýrari mynd af þessum málum og afla okkur dýrmætra upplýsinga um hvernig koma megi í veg í fordóma og misrétti.

Í 3. lið er fjallað um upplýsingamiðlun til innflytjenda. Þetta er löngu tímabært skref en vantar samhljóm í því á hvaða tungumál þýða eigi nauðsynlegar félagslegar upplýsingar til innflytjenda. Samkvæmt einu verkefni segir að þýða eigi upplýsingar á móðurmál stærstu hópa innflytjenda, samkvæmt öðru verkefni á að þýða upplýsingar yfir á níu erlend tungumál á meðan eitt í viðbót ætlar að þýða þær yfir á nokkur tungumál. Hér vantar augljóslega samræmi. Ég legg því til að um hvert einasta verkefni í þessari málsgrein gildi að upplýsingarnar verði þýddar á móðurmál stærstu hópa innflytjenda og e.t.v. fleiri tungumál. Það væri ákveðin samræming og einföldun.

Í IV. kafla, Dvalar- og atvinnuleyfi, vil ég enn einu sinni minna ríkisstjórnina á frumvarpið sem Vinstri græn lögðu fram í haust og einnig breytingartillögu sem við höfum nýlega lagt fram, og ég nefndi hér áðan, sem skilgreinir tímabil atvinnuleyfis sem tímabundið leyfi veitt útlendingi til að ráða sig til starfa hér á landi í tiltekinni starfsgrein.

Í V. kafla, Túlkaþjónusta, vil ég aðeins gera eina tillögu og það er varðandi lið 5.2.

Ég tel að lýsingin eigi að vera, með leyfi forseta:

„Samdar verði verklagsreglur um túlkaþjónustu sem tryggi starfsmönnum með takmarkaða íslenskukunnáttu túlkun.“

Það er ekki nauðsynlegt að segja „ef aðstæður krefjast“, af því að starfsmaður sem skilur ekki íslensku mun alltaf krefjast túlkunar ef hann verður fyrir slysi. Þannig er málið einfaldað.

VI. kafli, Móttaka við búsetuflutning, er fagnaðarefni.

Í VII. kafla, Ríki og sveitarfélög sem atvinnurekendur, nefni ég sérstaklega lið 7.8 en þar er fjallað um námskeið sem miðar að því að auka sérþekkingu innan lögreglunnar á málefnum útlendinga og á aðeins að kenna haustið 2008. Ég vona að slíkt námskeið verði endurtekið hvert einasta ár. Alltaf eru ráðnir til starfa nýir lögreglumenn og einnig geta málefni innflytjenda, þar á meðal samskipti milli innflytjenda og Íslendinga, tekið breytingum ár frá ári. Slík námskeið verða að taka tillit til þess og þarf að endurtaka þau á hverju ári.

Í VIII. kafla, Atvinnumál og atvinnuþátttaka, legg ég til að í stað: „á nokkrum helstu tungumálum innflytjenda“ í lið 8.4 standi, með leyfi forseta: „á móðurmáli þeirra eða tungumálum sem þeir skilja“. — Ég tel „nokkur helstu tungumál“ ekki nógu skýrt og nauðsynlegt er að við höfum þetta ákvæði á hreinu.

Það vantar einnig upp á samræmi í X. kafla. Samkvæmt lið 10.8 er ætlunin að þýða bæklinginn yfir, með leyfi forseta: „á átta helstu tungumál innflytjenda“ en í 10.9 er kveðið á um að innritunarvefur verði þýddur yfir á „nokkur helstu tungumál innflytjenda“. Hér legg ég til það sama og í 3. mgr. að verkefni verði þýtt yfir á móðurmál stærstu hópa innflytjenda og e.t.v. yfir á fleiri tungumál.

Að lokum vil ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra og starfshópi hennar sem bjó til þessa tímabæru framkvæmdaáætlun. Ég styð hana og vonast til þess að við getum gengið enn lengra á þessari braut.