135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[22:53]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Bara örstutt um þetta mál. Eins og fram kom hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur þá skrifar nefndin öll undir nefndarálitið. Reyndar sat hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fundinn í fjarveru minni þegar málið var tekið út og skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara.

Það er nú ekki stórvægilegur fyrirvari. Við styðjum þetta mál en það hafði komið fram í 1. umr. um málið að vakin var athygli á því að þegar frumvarpið var upphaflega flutt, sem var reyndar á 132. löggjafarþingi ef ég man rétt, að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta yrði hjá einu sýslumannsembætti, nefnilega hjá sýslumanninum á Ísafirði. Ég spurði hæstv. samgönguráðherra að því í 1. umr. hvort hér væri um stefnubreytingu af ráðnum hug að ræða en hann þekkti ekki nákvæmlega forsögu þess máls.

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að það sé ekki bundið við eitt sýslumannsembætti heldur öll. Ég held að við getum tekið undir þá niðurstöðu sem hér er lögð til í þessu máli.